Myndir mánaðarins September 2017 tbl. 284 DVD-VOD-BR-Tölvuleikir | Page 28

Alien : Covenant
Forðaðu þér . Hlauptu . Feldu þig .
Geimfarið Covenant er á leið til áfangastaðar á hjara Vetrarbrautarinnar þegar áhöfnin uppgötvar ókannaða plánetu sem við fyrstu sýn líkist Jörðinni mjög . Ákveðið er að lenda á plánetunni og skoða hana betur en sá könnunarleiðangur á fljótlega eftir að breytast í baráttu áhafnarinnar fyrir lífinu .
Alien : Covenant er sjötta myndin í Alien-seríunni sem hófst með samnefndri metaðsóknarmynd árið 1979 . Um leið er þetta þriðja mynd seríunnar sem Ridley Scott leikstýrir , en hann leikstýrði þeirri fyrstu og svo þeirri síðustu , Prometheus , sem var frumsýnd 2012 og var eins og sjálfsagt flestir muna tekin upp á Íslandi að hluta . Hér heldur ævintýrið áfram þar sem frá var horfið og mega áhorfendur búast við gríðarlega spennandi atburðarás frá upphafi til enda ...
Áhöfnin á Covenant telur fjórtán manns og eitt vélmenni en fullvíst má telja að fjórtánmenningarnir munu ekki öll lifa könnunarferðina af .
Alien : Covenant
Tryllir / Vísindaskáldsaga
DVD
Aðalhlutverk : Michael Fassbender , Katherine Waterston , James Franco , Danny McBride , Billy Crudup , Carmen Ejogo , Noomi Rapace og Guy Pearce Leikstjórn : Ridley Scott Útgefandi : Sena
123 mín
28 . september
Punktar .................................................... HHHHH - RogerEbert . com HHHHH - The Telegraph HHHH1 / 2 - Hollywood Reporter HHHH - Entert . Weekly HHH1 / 2 - Rolling Stone HHH1 / 2 - Los Angeles Times
l Leikstjóri myndarinnar , Ridley Scott , lét hafa eftir sér í blaðaviðtali að Alien : Covenant væri í raun önnur myndin á eftir Prometheus í nýrri Alien-seríu sem að lokum myndi tengjast atburðunum í upphaflegu Alien-myndinni sem frumsýnd var 1979 . Hvort um verði að ræða þrjár eða fjórar eða jafnvel fimm myndir þar til sú tenging brestur á upplýsti hann hins vegar ekki .
l Þótt tónlistin í myndinni sé skráð á Jed Kurzel má heyra í henni nokkur stef úr upprunalegu myndinni , en tónlistin í henni var samin af Jerry Goldsmith sem lést árið 2004 . Þess má einnig geta að fyrir utan tónlistina má finna í Alien : Covenant nokkrar aðrar beinar tilvísanir í upprunalegu myndina , þ . á m . orðréttar setningar úr henni .
Ridley Scott við leikstjórn á Alien : Covenant .
Veistu svarið ? Eins og þeir vita sem séð hafa fyrstu Alien-myndina sem gerð var 1979 lék Sigourney Weaver aðalsöguhetjuna í henni , hina eitilhörðu Ripley , en við spyrjum : Hvað hét geimskipið í þeirri mynd ?
Katherine Waterstone leikur áhafnarmeðliminn Daniels sem einna mest mæðir á í Alien : Covenant eftir að geimskipið lendir á hinni dularfullu og áður ókönnuðu plánetu .
28 Myndir mánaðarins
Nostromo .