Væntanlegt í október
Þrátt fyrir að vera orðinn 63 ára er Jackie Chan hvergi nærri af baki dottinn og hefur reyndar sjaldan verið með eins margar myndir í bígerð og núna . Sú nýjasta heitir The Foreigner og er leikstýrt af Martin Campell ( Casino Royal ) en hún er byggð á bókinni The Chinaman eftir Stephen Leather . Myndin , sem verður frumsýnd 20 . október , segir frá manni einum , Quan , sem missir dóttur sína í hryðjuverkaárás . Quan ákveður að þeir sem bera ábyrgð á dauða hennar muni gjalda fyrir glæpinn og einsetur sér að finna þá hvað sem það kann að kosta . Þá kemur sér vel að hann býr yfir bardagahæfileikum og þekkingu sem bendir til að hann hafi reynslu af því að berjast við hryðjuverka- og aðra glæpamenn , sennilega sem lögreglumaður eða jafnvel sem fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustunnar , en fortíð hans er ekki ljós í upphafi myndarinnar .
Eins og allir vita sem fylgst hafa með ferli Jackies Chan hafa myndirnar sem hann leikur í yfirleitt verið laufléttar og ekki síður gamanmyndir en bardaga- og hasarmyndir . Hér kveður hins vegar við nýjan og dekkri tón í þessum efnum sem við förum betur yfir í októberblaðinu .
Hvað er eiginlega á seyði ?
Þann 27 . október er loksins komið að því að frumsýna kvikmyndina Rökkur á Íslandi en hún var fyrst sýnd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar og hefur síðan farið á milli kvikmyndahátíða erlendis og hlotið mjög góða dóma . Höfundur og leikstjóri er Erlingur Óttar Thoroddsen sem vakti mikla athygli með hrollvekjunni Child Eater í fyrra og sýndi þar og sannaði hæfileika sína sem leikstjóri .
Rökkur segir frá Gunnari ( Björn Stefánsson ) sem fær skrítið símtal frá fyrrverandi kærasta sínum , Einari ( Sigurður Þór Óskarsson ). Einar segist vera staddur í bústaðnum Rökkri á Snæfellsnesi og að hann hafi á tilfinningunni að hann sé ekki einn þótt hann sé í raun einn . Gunnari er ekki sama og ákveður að aka upp á Snæfellsnes og kanna sjálfur um hvað Einar er að tala . Þegar þangað er komið kemst hann að því að þetta er rétt hjá Einari . Það er eitthvað verulega dularfullt í gangi í bústaðnum og í kringum hann – eitthvað sem erfitt er að útskýra .
Erlingur framleiddi myndina sjálfur ásamt Baldvini Kára Sveinbjörnssyni og Búa Baldvinssyni , en um kvikmyndatöku sá John Wakayama Carey og það er Einar Sverrir Tryggvason sem semur tónlistina . Kíkið á dularfulla stiklu myndarinnar á netinu .
Kvikmyndin Tulip Fever er byggð á sögulegri skáldsögu rithöfundarins Deboruh Moggach , en hún skrifaði einnig bókina These Foolish Things sem myndin frábæra The Best Exotic Marigold Hotel var byggð á . Leikstjóri er Justin Chadwick ( The Other Boleyn Girl ) og handritið er eftir Tom Stoppard sem hlaut m . a . Óskarinn árið 1999 fyrir handritið að myndinni Shakespeare in Love .
Alicia Vikander leikur hina fögru Sophiu í Tulip Fever sem er alls ekki öll þar sem hún er séð .
Tulip Fever gerist í Amsterdam og hefst árið 1634 þegar svokallað „ túlípanaæði “ var í algleymingi , en það æði byggðist á skyndilegum vinsældum túlípana og verðhækkun á þeim sem skóp hraðvaxandi efnahagsbólu í Hollandi ( sumir segja þetta vera fyrstu efnahagsbóluna ) sem sprakk svo með látum 1637 . Við kynnumst hér hinni fögru Sophiu sem verður ástfangin af listmálara sem eiginmaður hennar ræður til að mála myndir af þeim . Sú ást og afleiðingar ástarævintýrsins verða alvarlegar en atburðarásin á síðan eftir að taka óvæntari stefnu en áhorfendur geta ímyndað sér .
Það er Alicia Vikander sem leikur Sophiu og í hlutverki eiginmanns hennar er Christoph Waltz . Í hlutverki listmálarans er Dane DeHaan en aðrir þekktir leikarar myndarinnar eru m . a . þau Judi Dench , Zach Galifianakis , Jack O ' Connell og Cara Delevingne , Myndina á að frumsýna 13 . október og verður hún því kynnt nánar í næsta blaði .
Tvær nýjar teiknimyndir verða frumsýndar í október , annars vegar The Nut Job 2 , eða Hneturánið 2 eins og hún heitir á íslensku , og hins vegar My Little Pony : The Movie , en hún hefur ekki hlotið íslenskt heiti þegar þetta er skrifað .
Hneturánið 2 er eins og nafnið bendir til framhald samnefndrar myndar sem sýnd var í bíó 2014 . Þar kynntumst við íkornanum Surlí sem er afskaplega hugmyndaríkur og uppátækjasamur í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur , en það snýst reyndar flest um að ná sér í fleiri hnetur . Í þessari mynd þurfa hann og félagar hans í garðinum að snúa bökum saman þegar borgarstjórinn ákveður að heimkynni þeirra skuli víkja fyrir nýjum leiktækjagarði . Á það getur Surlí auðvitað alls ekki fallist , en hvað á hann til bragðs að taka ?
Hin myndin er byggð í kringum Ponysmáhestana sem um árabil hafa verið vinsæl leikföng eins og flestir vita . Þeir eiga við ekki ósvipað vandamál að stríða og Surlí og þurfa að fylkja liði út á hjara Equestriu þar sem þeir vonast eftir að fá aðstoð til að bjarga borginni sinni , Ponyville , frá eyðingu af völdum illra afla .
Myndir mánaðarins 17