Poms
Látum drauminn rætast
Martha (Diane Keaton) er orðin dálítið leið á hlutunum og
ákveður að fara á elliheimili til að deyja (að eigin sögn). En
undir þessu hrjúfa yfirborði býr kraftur og áræðni sem kemur
vel í ljós þegar hún fær þá hugdettu að stofna hvatningarsveit
(cheer leading squad) ásamt hinum konunum á elliheimilinu
og taka þátt í hvatningarsveitakeppni fyrir 18 ára og eldri.
Það má segja að hér taki saman höndum fólkið sem stóð að gerð
Bad Moms-myndanna annars vegar og hinnar stórskemmtilegu
Bookclub hins vegar og ættu því þeir sem sáu þær myndir ekki að
vera í vafa um hvers konar bíóskemmtun er hér á ferðinni. Eins og
í þeim myndum eru það fyrst og fremst þekktar leikkonur sem
fara með aðalhlutverkin og í þetta sinn eru það auk Diane Keaton
þær Pam Grier, Rhea Perlman, Celia Weston, Jacki Weaver, Patricia
French, Alisha Boe, Carol Sutton og Ginny MacColl sem leiða hópinn.
Að sjálfsögðu fær hugmynd Mörthu um hvatningarsveitina frekar
dræmar undirtektir hjá stjórnendum elliheimilisins, a.m.k. í byrjun
enda virðast fæstar konurnar vera í því formi sem slíkt útheimtir,
hvað þá að vera færar um að taka þátt í keppni á móti stúlkum sem
eru meira en 50 árum yngri en þær. En lengi lifir í gömlum glæðum ...
Poms
Gamanmynd
91
mín
Aðalhlutverk: Diane Keaton, Pam Grier, Rhea Perlman, Celia Weston,
Jacki Weaver, Bruce McGill, Charlie Tahan, Patricia French, Alisha
Boe og Phyllis Somerville Leikstjórn: Zara Hayes Bíó: Smárabíó,
Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri
Frumsýnd 17. maí
Þegar Martha kemur á elliheimilið tilkynnir hún móttökunefndinni að
hún hafi lítinn áhuga á að taka þátt í félagsstörfum enda sé hún bara
komin á svæðið til að deyja. En þetta á auðvitað eftir að breytast.
Punktar ....................................................
Poms er fyrsta bíómynd leikstjórans og handritshöfundarins Zöru
Hayes en hún á m.a. að baki margar heimildarmyndir, þ. á m. verð-
launamyndina Battle of the Sexes, hina áhrifamiklu Clothes to Die
For og sjónvarpsþáttaröðina Dian Fossey: Secrets in the Mist.
l
Veistu svarið?
Hin 71 árs gamla Rhea Perlman er ein af þeim sem
leika stórt hlutverk í hvatningarsveit Mörthu, en
Rhea hefur eins og margir vita verið gift Danny
DeVito allar götur síðan 1982. Samt sem áður hafa
þau aðeins leikið saman í einni bíómynd. Hvaða?
Uppistaðan í leikhópnum eru þekktar leikkonur fyrri ára og hér má m.a.
sjá þær Rheu Perlman, Diane Keaton, Pam Grier, Jackie Weaver, Phyllis
Somerville, Carol Sutton og Ginny MacColl í hlutverkum sínum.
Matilda (1996).
Myndir mánaðarins
23