Bíófréttir
Óskarsverðlaunin 2017
Óskarsverðlaunahátíðin var haldin með pompi og prakt 26 . febrúar og var eins og næstum því alltaf áður ákaflega skemmtileg . Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel var gestgjafi hátíðarinnar að þessu sinni og fór á kostum í bæði upphafsræðu sinni og stuttum atriðum inn á milli þess sem sjálf verðlaunin voru afhent . Á meðal þess sem hann gerði var að bjóða í salinn heilli rútu af ferðamönnum sem höfðu ekki hugmynd um það fyrirfram að þeir væru um það bil að fara að ganga í salinn þar sem allar helstu kvikmyndastjörnur Bandaríkjanna voru saman komnar . Vakti þetta atriði mikla lukku hjá gestum í salnum og að sjálfsögðu hjá ferðamönnunum sem réðu sér sumir ekki fyrir kæti .
Sú einstaka uppákoma varð í lok hátíðarinnar þegar veita átti verðlaunin fyrir bestu mynd ársins að þau Faye Dunaway og Warren Beatty sem áttu að lesa upp nafn myndarinnar virðast hafa fengið rangt umslag í hendurnar og tilkynntu að La La Land hefði verið valin besta mynd ársins . Aðstandendur hennar fögnuðu , komu upp á svið , tóku við verðlaununum og voru byrjaðir á þakkarræðum þegar uppgötvaðist að mistök höfðu verið gerð . Moonlight var valin besta mynd ársins .
Að þessari uppákomu undanskilinni kom fátt á óvart í verðlaunaafhendingunni sjálfri . La La Land fékk eftir sem áður flesta Óskarana eins og spáð hafði verið eða sex samtals og Moonlight hlaut þrjá . Að öðru leyti var verðlaununum nokkuð bróðurlega skipt á milli myndanna sem tilnefndar voru . Hér eru nokkrar ljósmyndir frá hátíðinni :
Casey Affleck hlaut Óskarinn fyrir leik sinn í myndinni Manchester By the Sea .
Justin Timberlake opnaði hátíðina með flutningi á laginu Can ' t Stop The Feeling .
Emma Stone hlaut Óskarinn fyrir leik sinn í La La Land og Viola Davis fyrir leik í myndinni Fences .
Jimmy Kimmell var gestgjafi kvöldsins að þessu sinni .
Kenneth Lonergan var þakklátur fyrir Óskarinn fyrir besta handritið .
Mahershala Ali hlaut Óskar fyrir besta leik í aukahlutverki .
Uppákoman sem varð í lok hátíðarinnar þegar Óskarsverðlaunin fyrir bestu mynd ársins voru afhent og í ljós kom að Faye Dunaway hafði lesið upp ranga mynd verður lengi í minnum höfð . Mistökin voru samt ekki hennar sök heldur höfðu þau Faye og Warren Beatty fengið í hendur rangt umslag . Hvernig í ósköpunum það gat gerst er ekki ljóst þegar þetta er skrifað en vafalaust verður það útskýrt síðar .
Myndir mánaðarins 17