Myndir mánaðarins Janúar 2017 tbl. 276 Bíóhluti | Page 17

Bíófréttir – Væntanlegt
Keanu Reeves leikur töffarann John Wick í mynd númer tvö um kappann sem verður heimsfrumsýnd á Íslandi 10 . febrúar .

Töffari númer eitt

Fyrrverandi leigumorðinginn John Wick , sem var neyddur til að grípa til sinna ráða í fyrstu myndinni um hann fyrir tæpum þremur árum og sló í gegn hjá áhorfendum fyrir vikið , á erfitt með að finna friðinn á ný enda eru þeir margir sem vilja nýta sér ótrúlega hæfileika hans til að sigrast á hvaða aðstæðum sem er og enn fleiri sem vilja losna við hann af yfirborði jarðar fyrir fullt og allt enda hefur hann gert mörgum gramt í geði , bæði glæpamönnum og kollegum sínum í greininni .
Við vitum ekki mikið um söguþráð nýju myndarinnar , John Wick : Chapter 2 , annað en að þetta sinn neyðist John til að fresta fyrirætlunum sínum um náðuga daga enn um sinn þegar hann þarf að ferðast til Rómar til að aðstoða gamlan félaga . Þar á hann hins vegar eftir að mæta mótstöðu sem er umfram allt sem hann hefur áður þurft að kljást við . Myndin verður heimsfrumsýnd á Íslandi 10 . febrúar .

Getur ástin sigrað ?

Það hlakka örugglega margir aðdáendur bóka rithöfundarins E . L . James um ástarsamband þeirra Christians Grey og Anastasiu Steele til að sjá mynd númer tvö , Fimmtíu dekkri skugga , en hún verður frumsýnd á sama tíma um allan heim 10 . febrúar . Í þetta sinn er það James Foley sem leikstýrir og mun hann einnig leikstýra þriðju myndinni , Fimmtíu skuggar frelsis , sem verður frumsýnd í febrúar 2018 . Með aðalhlutverkin sem fyrr fara þau Jamie Dornan og Dakota Johnson og segir sagan að myndin sé að öllu leyti mun veglegri en sú fyrsta og meira í hana lagt . Við fjöllum um hana betur í næsta blaði og hvetjum fólk til að sjá stikluna .
Matthew McConaughey og Edgar Ramírez leika viðskiptafélagana Kenny Wells og Michael Acosta í Gold .

Glópagull ?

Bíómyndin Gold er eftir leikstjórann og handritshöfundinn Stephen Gaghan sem leikstýrði síðast myndinni Syriana árið 2005 og skrifaði m . a . handritið að Traffic sem færði honum Óskarsverðlaunin árið 2001 . Í þetta sinn vinnur hann eftir handriti félaganna Johns Zinman og Patricks Massett ( Blacklist ) en það er sagt byggja á sannsögulegum atburðum .
Myndin er um mann að nafni Kenny Wells sem er sneisafullur af viðskiptahugmyndum en hefur átt í vandræðum með að fá þær fjármagnaðar enda er hann með slæma viðskiptasögu á bakinu . Nótt eina dreymir hann draum sem sannfærir hann um að halda til Indónesíu í gullleit og svo fer að hann fær jarðfræðinginn Michael Acosta til að koma með sér . Eftir gríðarleg vandræði þar sem allt virðist ætla að fara endanlega í vaskinn hjá okkar manni rætist draumurinn þegar hann og Michael finna einhverja stærstu gullæð sem fundist hefur í heiminum . En þar með er sagan bara hálfsögð og eins og með aðrar myndir í þessari opnu kynnum við Gold betur í næsta blaði , en hún er sögð alveg gríðarlega góð og vel gerð .
Myndir mánaðarins 17