Bíófréttir – Væntanlegt
Hrollvekjuunnendur eiga von á góðu í febrúar þegar myndirnar The Bye Bye Man og Rings verða frumsýndar .
Febrúarhrollurinn
Hrollvekjuunnendum verður að öllum líkindum boðið upp á tvær glænýjar hrollvekjur í febrúarmánuði , annars vegar The Bye Bye Man eftir Stacy Title og hins vegar framhald hrollvekjunnar The Ring sem heitir einfaldlega Rings .
The Bye Bye Man er byggð á smásögu eða öllu heldur kafla í bókinni The President ' s Vampire eftir Robert Damon Schneck sem kom út árið 2004 og vakti mikla athygli þeirra sem kunna að meta sögur af yfirnáttúrlegum atburðum . Í myndinni segir frá þremur ungmennum sem komast að því fyrir hálfgerða tilviljun hvaða afl það er sem stendur að baki illvirkjum manna , en standa þá um leið frammi fyrir því að verða sjálf fórnarlömb þessa sama afls ef þau gæta ekki að sér .
Grunnsöguna í hinni myndinni , Rings , þekkja allir hrollvekjuaðdáendur en hér snýr draugurinn Samantha aftur til að sækja sín nýjustu fórnarlömb . Í þetta sinn má hins vegar búast við að þeir sem hún ætlar sér að deyða séu betur undirbúnir undir komu hennar en áður og kannski á þeim eftir að takast að kveða hana niður fyrir fullt og allt . Við sjáum til , en gerum báðum þessum myndum mun betri skil í næsta blaði .
21 ári síðar ...
Í febrúar næstkomandi verða liðin nákvæmlega 21 ár síðan stórsmellurinn Trainspotting eftir Danny Boyle var frumsýndur , en hann var gerður eftir samnefndri bók Skotans Irvines Wells , bókinni sem átti ekki að vera hægt að kvikmynda . En Danny kýldi á það og var Trainspotting önnur mynd hans á eftir hinni eftirtektarverðu Shallow Grave sem hafði komið honum á leikstjórakortið tveimur árum fyrr . Um leið var Trainspotting ein af fyrstu myndum flestra aðalleikaranna sem eitthvað kvað að og gerði þau öll að þekktum leikurum sem hafa haft nóg að gera allar götur síðan . Eigum við þá fyrst og fremst við þau sem léku aðalhlutverkin , Ewan McGregor , Ewen Bremner , Jonny Lee Miller , Kelly Macdonald , Robert Carlyle og Shirley Henderson .
Þann 3 . febrúar er komið að endurfundum aðdáenda fyrri myndarinnar við hina kostulegu aðalkaraktera sögunnar , þau Renton , Spud , Sick Boy , Diane , Begbie og Gail og eru það í öllum tilfellum sömu leikarar sem leika þau . Við sjáum hvernig úr þeim hefur ræst ( eða ekki ræst , eftir því hvernig á það er litið ) og við hvað þau fást í dag . Þess ber að geta að söguþráður myndarinnar er ekki endilega byggður á Porno , annarri bók Irvines um þessar persónur , heldur gerist myndin síðar en atburðirnir í henni . Irvine skrifaði reyndar handritið sjálfur og eins og í fyrri myndinni leikur hann eina aukapersónuna , Mikey Forrester .
Fyrstu tvær stiklurnar úr myndinni eru tiltölulega nýkomnar út og það er nokkuð ljóst að þótt persónur sögunnar séu 21 ári eldri en þegar við sáum þær síðast hefur lítið breyst – hjá sumum .
Það eru þeir Ice Cube og Charlie Day sem fara með hlutverk andstæðinganna Stricklands og Campbells í Fist Fight .
Aðeins einn mun eftir standa !
Gamanmyndin Fist Fight sem verður frumsýnd í febrúar er lauslega byggð á myndinni Three O ' Clock High , en hún þótti ein af skemmtilegustu myndum ársins 1987 og er í dag búin að ná „ cult “ -status í kvikmyndaheiminum , enda stendur hún enn vel fyrir sínu og gott betur .
Í þeirri mynd sagði frá nemandanum og nördinum Jerry Mitchell sem kom sjálfum sér í vonda stöðu þegar hann móðgaði óvart aðalbulluna í skólanum og neyddist til að mæta honum í bardaga sem hann átti ekki nokkra einustu möguleika á að komast ólaskaður frá .
Í Fist Fight snýst sagan hins vegar um kennarana Strickland og Campell . Þegar sá síðarnefndi veldur því alveg óvart að sá fyrrnefndi er rekinn lendir hann í sömu stöðu og Jerry forðum því Strickland skorar hann á hólm á skólalóðinni eftir skóla og fer fréttin af bardaganum sem eldur í sinu um allt bæjarfélagið . Og hvað gera einlægir friðarins menn eins og Campell þá ?
18 Myndir mánaðarins