Myndir mánaðarins Desember 2016 tbl. 27-1 Bíóhluti | 页面 15

Bíófréttir – Væntanlegt
Frá brúðkaupsveislu þeirra Max og Marianne í Allied .
Brad Pitt sinnir aðdáendum við tökur á Allied í London .

Velkomin til Lundúna árið 1943

Nýjasta bíómynd Roberts Zemeckis verður frumsýnd 1 . desember en hún gerist að stórum hluta í London á árunum 1942 til 1943 og er með Brad Pitt og Marion Cotillard í hlutverkum tveggja njósnara sem eftir að hafa unnið saman að stórhættulegu verkefni í Marokkó verða ástfangin hvort af öðru , ganga í hjónaband og eignast barn .
Málin taka hins vegar óvænta og æsispennandi stefnu þegar breska leyniþjónustan fær um það grun að Marianne sé í raun þýskur njósnari og gefur Max 72 klukkustundir til að komast að hinu sanna . Reynist Marianne njósnari er honum falið að taka hana af lífi og ef hann gerir það ekki verður hann sjálfur líflátinn ásamt Marianne .
Þessi saga og það sem gerist næst er auðvitað burðarstoð myndarinnar en undir þeim er grunnurinn og hann er í þessu tilfelli sviðsetning , búningar , förðun , hárgreiðsla og tónlist myndarinnar .
Það sem við eigum við er að við gerð Allied var lögð gríðarleg áhersla á að endurskapa ekki bara útlit Lundúna árið 1942 og fólksins sem þar bjó á þessum tíma heldur og andrúmsloftið sem var að sjálfsögðu þrungið spennu vegna loftárása Þjóðverja og hættunnar á innrás þeirra hvenær sem var .
Ekkert var til sparað við að gera þetta sem best úr garði og trúverðugast og ein helsta heimildin um t . d . klæðnað , hárgreiðslu og sviðsmuni voru einmitt bíómyndir þessa tíma . Segja má að þeir sem sjá myndina muni upplifa hana þannig – fyrir utan spennuna – að þeir séu annars vegar staddir í London árið 1942-3 eða að horfa á mynd frá fimmta áratuginum - eða hvort tveggja .
Þess má geta í framhjáhlaupi að þær sögur fóru í gang þegar fréttist af skilnaði þeirra Brads Pitt og Angelinu Jolie að þau Brad og Marion hefðu átt í raunverulegu ástarsambandi við gerð myndarinnar . Þetta reyndust hins vegar gróusögur , algjörlega úr lausu lofti gripnar .

Bestu vinir í 21 ár

Þau Jason Bateman og Jennifer Aniston eru nánast jafnaldrar . Hann fæddist í New York 14 . janúar 1969 en hún kom í heiminn tæpum mánuði síðar , eða 11 . febrúar 1969 í Los Angeles . Þegar Jason fékk sitt fyrsta sjónvarpshlutverk , 12 ára gamall ( í The Little House on the Prairie – Húsið á sléttunni ) flutti fjölskylda hans til Los Angeles .
Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1995 sem þau Jason og Jennifer hittust fyrst í gegnum sameiginlega vinkonu , Catherine Keener , og segja bæði að um leið – og allar götur síðan – hafi þau smollið saman , aldrei samt sem par heldur miklu frekar sem systkini . Þau hafa sagt í viðtölum að þau hafi nákvæmlega sama húmorinn og mjög svipaðar skoðanir á flestu öðru . Þess vegna nái þau alltaf svo vel saman , hvort sem er í raunveruleikanum eða í myndunum sem þau hafa leikið saman í , en með nýjustu myndinni , Office Christmas Party ( sem er kynnt nánar hér aftar í blaðinu ), eru þær nú orðnar fjórar . „ Við höfum verið hvort öðru stoð og stytta í tuttugu ár og það mun ekki að breytast “, sagði Jennifer í nýlegu blaðaviðtali . „ Vonandi gefst okkur tækifæri til að leika saman í mörgum fleiri myndum .“
Þótt þau Jason Bateman og Jennifer Aniston segi sér líða eins og systkinum hafa persónurnar sem þau hafa leikið í sameiginlegum myndum verið gerólíkar . Það gildir einnig um persónurnar sem þau leika í Office Christmas Party , Josh og Carol , sem sjást hér á myndunum til vinstri .
Myndir mánaðarins 15