Knattspyrna Ægir yngri flokkar 1. tölublað 2018 efni um knattspyrnu og starf yngr | Page 9

Krakkarnir eru að stækka og freistandi að kaupa skó sem eru vel við stærð. Ekki gera þetta. Skórnir mega bara vera örlítið stærri en fóturinn til að hafa smásvigrúm. Ef krakkarnir þrýsta sér fram í skóinn ætti ekki að vera pláss fyrir mikið meira en litlaputta við hælinn.

Ef skórnir eru of stórir hreyfist fóturinn of mikið og nuddast við skóinn. Blöðrur spretta upp.

Góðir skór eru hannaðir til að veita stuðning á réttum stöðum og ef þeir eru ekki af réttri stærð er sú viðleitni fokin út í veður og vind. Takkar eru til dæmis ekki staðsettir þar sem þeir eru af neinni tilviljun.

Kaupið frekar ódýrari skó sem passa vel og endurnýið oftar fremur en rándýra skó sem eiga að endast von og viti.

Mátið alltaf skó með legghlífar og í fótboltasokkum. Sumar legghlífar eru til dæmis á sokki og taka pláss. Þá er allur gangur á því hversu þykkir sokkarnir okkar eru. Takið því ykkar sokka og legghlífar með í verslunarleiðangurinn

Skór eiga að vera þægilegir alveg frá fyrstu tíð. Ekki gera því skóna að þeir gefi til dæmis mikið eftir við notkun. Leðurskór gera það að einhverju marki en oftar en ekki erum við að kaupa skó úr gerviefnum sem gefa lítið eftir ef nokkuð. Labbið um búðina, skokkið á staðnum, spyrnið til hliðanna, fram og aftur og hermið þannig eftir átökum á vellinum. Passið ykkur að gólf í verslunum getur verið hált og ekki viljum við heldur vera með óþarfa læti en við viljum að skórnir séu þægilegir og veiti góðan stuðning og eina leiðin er að prófa aðeins.

Farið vel með skóna. Á leðurskó þarf að bera leðurfeiti eða skóáburð. Þeir verða mýkri og betri fyrir vikið, endast lengur og haldast hreinni.

Reynið að finna mjúka skó. Þeir fara betur með fæturna og krökkum líður betur í þeim. Vinsælir skór sem atvinnumenn nota til dæmis - eru oft mjög harðir og ein helsta ástæða þess að ekki megi apa eftir þeim. Harðir skór auka mjög líkur á ýmsum tognunum.

Í mjúkum skóm finna krakkarnir meira fyrir boltanum og fá betri tilfinningu fyrir honum. Ódýrari skór eru oft mýkri og ein ástæða þess að þeir eru oft betri kaup.

Ekki er hægt að ganga að því vísu að skór af einhverri gerð sem passaði svo vel síðast - geri það aftur. Fætur vaxa og breytast og skórnir breytast stundum milli árgerða.

Sumir eru með langa og mjóa fætur - en aðrir með styttri og sverari. Oft má sjá mun á milli framleiðenda hvað þetta varðar. Nike finnst mér um þessar mundir frekar breiðari en Adidas til dæmis. Þetta er hins vegar breytilegt milli ára og ekki hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Gefið ykkur því tíma til að prófa nokkrar gerðir.

Skór eru mismunandi djúpir. Gætið þess að kanturinn á skónum nuddist ekki við beinkúluna og vitlausa beinið til dæmis. Sumir krakkar eru með aukabein á þessum slóðum sem taka verður tillit til líka. Hvorki tungan má hællinn má særa. Nokkrar útfærslur eru til á tungu og hæl og misjafnt hvað passar mönnum best. Aftur er gott að hafa í huga að mjúkir skór eru oftast þægilegri fyrir krakkana.