Knattspyrna Ægir yngri flokkar 1. tölublað 2018 efni um knattspyrnu og starf yngr | Page 8

Miklu máli skiptir að skóbúnaður krakka sé góður. Þetta á alltaf við - en sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir þá sem eru í fótbolta. Oft má rekja krankleika í stoðkerfinu til rangs fótabúnaðar og krökkunum líður hreinlega illa í slæmum skóm sem dregur mjög úr ánægju og áhuga.

Í knattspyrnu spilum við innanhúss, á gervigrasi og á grasi. Útihlaup eru oft notuð til æfinga og þá yfirleitt á malbiki eða öðru hörðu undirlagi. Innanhúss notum við innanhússskó, á gervigrasi notum við gervigrasskó, á grasvelli takkaskó og í hlaupin notum við hlaupaskó.

Þetta er enginn smálisti og auðvelt að eyða stórum fúlgum í skókaup. Því er um að gera að vanda valið svo fjárfestingin nýtist sem best. Hér eru nokkur atriði sem hafa ætti í huga:

Börn og unglingar eru EKKI smækkaðar útgáfur af atvinnumönnum í fótbolta. Fætur barna eru að vaxa og eru óþroskaðir og viðkvæmir - allt annað en fullorðnir atvinnumenn með gríðarlega sterka fætur. Skóbúnaður atvinnumannanna má því ALLS EKKI ráða því sem hvað keypt er fyrir krakkana. Þvert á móti eru þeir skór sem mestrar athygli njóta og eru vinsælastir oft mjög slæm kaup.

Á gervigrasi ætti að nota gervigrasskó en ekki takkaskó. Takkaskór eru fyrst og fremst til að nota á grasi þar sem takkarnir sökkva í grassvörðinn til að ná meira gripi. Þeir eru ekki hentugir á gervigrasið og til þess gerðir skór fara mun betur með fætur barnanna. Vilji menn engu að síður spara sér eitt skópar - er um að gera að velja þá takkaskó með mörgum og smáum tökkum. Einnig er alveg hægt að spila á grasi á gervigrasskóm þótt stundum verði leikmönnum hált á því - einkum í blautu grasi.

Hlaupaskór ættu að vera á hverju heimili. Ekki eingöngu til að hlaupa í - heldur til að nota dags daglega. Í dag eru krakkar meira og minna á hörðu yfirborði eins og malbiki. Mjúkir skór - eins og hlaupaskór - eiga því að vera í öndvegi. Margir nota gervigrasskó til þess arna - en það er ekki hentugt nema krakkarnir séu þá á mjúku yfirborði að miklu leyti - eins og við knattspyrnuiðkun.

Hlaupaskór eru hins vegar ekki hentugir til að spila knattspyrnu í. Þeir eru ekki gerðir til að taka á snúningum sem fylgja henni enda með hærri sóla en knattspyrnuskór og auðvelt að snúa sig um ökklann í þeim.

Flatbotna skó eins og Vans-skó og Kawasaki-skó til dæmis sem njóta mikilla vinsælda hjá mörgum - vilja sumir helst banna. Mikil notkun á þeim getur farið mjög illa með fætur barnanna.

Krakkar ættu ekki að fara í takkaskónum sínum á æfinguna, heldur hafa þá meðferðis og skipta fyrir og eftir æfingu. Á leið sinni á æfingu þurfa þeir yfirleitt að labba allmikið á hörðu yfirborði eins og malbiki, sem fer illa með fæturna og eyðir tökkunum á skónum.

Skór eiga að veita stuðning á réttum stöðum. Ágætt er að prófa að "vinda upp á" skóna til að prófa þá - með því að grípa um tá og hæl og snúa upp á skóinn - og beygla. Skórnir eiga ekki að gefa eftir frá hæl og fram yfir miðju. Þeir eiga að gefa eftir á fremri hlutanum - á svipuðum slóðum og maður stendur í þegar maður er á tánum. Ef þeir gefa eftir á aftari hlutanum veita þeir ekki nógan stuðning vil hæl og ökkla. Þetta á við um allar skógerðir.

Nokkur orð um skó....