Knattspyrna Ægir yngri flokkar 1. tölublað 2018 efni um knattspyrnu og starf yngr | Page 10

Til eru innlegg til að setja í skó til að hækka þá örlítið upp í hælinn ef skórnir passa annars mjög vel að öðru leyti.

Skókaup mega ekki ráðast af því hvað vinkonan keypti. Það sem passar einum vel, fer illa með fæturna á öðrum.

Takkaskór eiga að vera með sem flestum tökkum. Ekki kaupa skó sem eru aðeins með tveimur tökkum á hælnum. Með fleiri tökkum fæst betri stuðningur sem fer betur með fæturna. Þeir takkaskór sem við kaupum eru ekki með skrúftökkum. Þeir eru sem betur fer hreinlega bannaðir á æfingum og leikjum í yngri flokkum enda stórhættulegir í návígi og fara illa með fætur krakkanna. Þeir eru gerðir til að sökkva vel í gras og það þarf allþunga leikmenn til að svo verði. Sumir hafa keypt svona skó erlendis í góðri trú - en þeir eru sem fyrr segir bannaðir hér.

Takkaskórnir sem krakkarnir nota eru oftast með takkana steypta með sólanum - úr plasti yfirleitt. Þeir geta verið allavega að lögun - en eru oftast hringlaga. Stundum sitja eftir nibbur í plastinu á tökkunum. Þessar nibbur eru mjög beittar margar og geta skorið andstæðinga og samherja illa þótt snertingin sé nánast engin. Virkar bara eins og hnífur. Bið ég ykkur því að skoða sólann vel og sverfa nibburnar burtu ef þið finnið svoleiðis.

Til eru mjög fínir, dýrir og vandaðir skór úr kengúruleðri og slíkum flottheitum. Þessir skór eru góðir margir, léttir og þægilegir en mismunandi sögur fara af því hvort þeir fari betur eða verr með fætur iðkenda. Atvinnumenn fá borgað fyrir að nota skó framleiðenda og þurfa ekki að horfa í útlátin sem fylgja. Þeir geta því leyft sér að fleygja skónum eftir einn leik. Ódýrari skór úr gerviefnum eða ódýrara leðri eru sterkari yfirleitt og miklu endingarbetri - og sumir segja - betri yfirleitt.

Þrátt fyrir að hafa vandað valið vel á alla kanta - má engu að síður búast við að hælsæri geti fylgt nýjum skóm. Allir ættu því að eiga hælsærisplástra til að grípa til þegar svo ber undir. Slíkir plástrar eru reyndar þarfaþing á öllum knattspyrnuheimilum yfirleitt.

Ekki er gott að fara beint í leik á nýjum skóm. Óþægindi (eins og hælsæri) kunna að koma í ljós og ekki sniðugt að verða fyrir því að geta ekki spilað. Skömminni skárra er að fara á nýjum skóm á æfingu (kannski með þá gömlu með sér líka) þar sem hægt er að prófa þá og tilkeyra í rólegra umhverfi.

Sumir eiga marga krakka í fótbolta. Því fylgir gjarnan heilu stæðurnar af rándýrum en lítt notuðum skóm. Þá er auðvelt að freistast til að fá krakkana til að nota skó af eldra systkini. Allir krakkar láta ekki bjóða sér það auðvitað og þarf stundum mikinn sannfæringarkraft til að fá þá bara til að prófa skó af sér eldri systkinum. Ef skórnir eru mjög mótaðir af fæti þess sem áður átti þá er ekki sniðugt að láta aðra taka við þeim. Þetta á til dæmis við marga leðurskó sem gefa eftir og mótast af fæti viðkomandi og þá mótast innleggið eftir nokkra notkun. Skór úr gerviefni eru ekki eins viðkvæmir fyrir þessu og oft eru skór það lítið notaðir að ekkert er að því að nota þá áfram fyrir næsta barn.

Takkar haldast oft býsna góðir þótt leður slitni. Hægt er að spara sér nokkrar upphæðir með því að fá skóara til að laga þá fremur en að kaupa sér nýja.

Gott er að renn bleyta nýja leðurskó þegar þeir eru nýir og ganga í þeim berfættur. Sumir ganga svo langt að fara í bað í þeim og sofa jafnvel í þeim. Allt er þetta gert til að láta þá mótast af fætinum.

Starfsfólk í verslunum hefur mjög misgóða þekkingu á því sem það eru að selja. Stundum hittir maður á góðan sölumann - en oft virðast þeir helst reyna að selja manni vinsælustu skóna bara. Gefið ykkur því fyrir alla muni góðan tíma. ( Bjarni Stefán ).