Sámur 3. tbl 42. árg 2015 | Page 27

það fara að myndast á því beingaddar. Við áreitið á brjóskið myndast í líkamanum bólguviðbrögð og hann fer að mynda cytokines (prótein) og ensím sem ennfremur valda skemmdum á brjóskinu. Við endastig slitbreytingar er brjóskið horfið og beinendarnir nuddast saman sem aftur veldur enn frekari skemmdum og meiri verkjum. Hvað veldur slitgigt? Hjá flestum er ástæða slitgigtar margþætt. Slitgigt getur komið vegna álags eða slits á annars eðlilegan lið og gerist þá þegar hundurinn eldist. Slitgigt getur líka komið vegna: • Óstöðugs liðar, til dæmis vegna liðbandaáverka. • Skaða eða óeðlilegs þroska á brjóskmyndun í lið (t.d. OCD) eða vegna þess að liðurinn myndaðist ekki „rétt“ (meðfætt, t.d. mjaðma- og olnbogalos). • Skaða vegna áverka, til dæmis brots í lið eða endurtekinnar tognunar. • Yfirþyngdar sem aftur myndar álag á brjóskið og getur þannig ýtt undir slitgigt. Einkenni Einkenni slitgigtar eru fjölmörg og fara þau eftir því hvaða liður/liðir eru undirlagðir, aldri hundsins og hversu slæm slitgigtin er. Slitgigt gerir liðina stífa og auma og hundurinn verður þannig stirður og skrefin styttast, göngulagið breytist og hundurinn verður sýnilega haltur. Hundurinn reynir að hlífa þeim fæti sem er slæmur með því að setja minni þunga á hann og eftir einhvern tíma rýrna vöðvarnir á þeim fæti sem hundurinn hlífir. Hundur með mjaðmalos á báðum mjöðmum er því oftar en ekki með mjög rýr læri en aftur á móti með mjög stóra vöðva á brjósti og öxlum þar sem hann færir þungann yfir á frampartinn. Hundar með slitgigt eru oft stirðir eftir hvíld en verða einkennaminni eftir því sem þeir hreyfa sig meira og verða heitari. upp eða niður tröppur, þeir liggja meira og eru almennt þreyttari. Sumir verða pirraðir og geta farið í vörn við snertingu á aumu svæði og sumir sleikja eða naga aum svæði. Margir hundar sækja í að liggja þar sem er heitt og jafnvel mjúkt. Eirðarleysi einkennir marga hunda sem eru orðnir slæmir af gigt. Þeir sem sváfu heilu næturnar á einum stað fara gjarnan að færa sig oft á milli staða. Eitt eiga þó flestir þessara hunda sameiginlegt og það er að þeir kvarta ekki! Greining Greining á slitgigt byggist á lýsingu og sögu á einkennum ásamt skoðun. Oft eru þessir hundar með töluverða skerðingu á liðleika og oft eru liðir bólgnir og meiri um sig en eðlilegt er. Röntgenmyndataka er gjarnan notuð við greiningu á slitgigt og í einstaka tilfellum þarf að taka sýni úr liðvökva eða blóðprufu. Erlendis eru annars konar myndgreiningar einnig notaðar við greiningu á slitgigt. Meðferðarúrræði Það er í fæstum tilfellum sem hægt er að „lækna” slitgigt. Í einstaka tilfelli er hægt að fjarlægja vandamálið með aðgerð en í allflestum tilfellum þarf að nálgast þennan sjúkdóm frá öðru sjónarmiði. Markmiðið við meðhöndlun á slitgigt er að halda liðnum/liðunum í notkun með eins litlum verkjum og hægt er og varðveita liðinn í sem bestri mynd eins lengi og mögulegt er. Hvert tilfelli er nánast einstakt. Ekki er hægt að dæma, til dæmis út frá röntgenmynd, hversu miklir verkir fylgja ákveðnum breytingum á myndinni. Það þarf að einstaklingsmiða meðferðina þannig að sem bestur árangur náist hverju sinni. Sumir hundar þola ekki ákveðin lyf og þá þarf að reyna að nálgast vandamálið frá öðru sjónarmiði. Oftast eru meðferðarúrræðin margþætt og fela í sér einhverja notkun á lyfjum, fæðubótarefnum, endurhæfingu, lasermeðferð og fóðri svo eitthvað sé nefnt. Stór þáttur í meðferðinni er að aðlaga sig að vandamálinu í gegnum daglega rútínu. Lyf Bólgueyðandi lyf (NASIDs) virka hratt með því að minnka bæði bólguna og verkina. Þegar verkirnir minnka líður hundinum betur og á auðveldara með að hreyfa sig sem er aftur mjög Hundur í endurhæfingu. Margir eiga í erfiðleikum með að hoppa upp í eða niður úr bílnum og ganga Sámur 3. tbl. 42. árg. desember 2015 · 27