Sámur 2.tbl - árg.35 September 2013 | Page 44

Aukinn áhugi á íslenska fjárhundinum Höfundar: Þorsteinn Thorsteinson og Stefanía Sigurðardóttir Íslenskur fjárhundur er ekki í útrýmingarhættu, hann er upprunaleg gömul hundategund sem varðveittist í okkar landi og dó aldrei út. Hann á sér aldagamla sögu en nú stöndum við frammi fyrir stórauknum vinsældum hans. Ljósm. Stefanía Sigurðardóttir. Hér á landi eru flestir vanir því að til sé íslenskur hundur, líkt og íslenskur hestur. Færri gera sér grein fyrir því að það er ekki sjálfsagt að þjóð eigi sína eigin hundategund. Íslenski hundurinn er viðurkennd tegund hjá FCI sem er Alþjóðasamband hundaræktarfélaga með 86 aðildarlönd. Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) hefur borið ábyrgð á velferð íslenska hundsins hér og ættbók hans frá stofnun þess, árið 1969. Mikilvægt brautryðjendastarf er unnið hvort sem litið er til stofnunar félagsins eða elstu ræktunardeildar þess, deildar íslenska fjárhundsins (DÍF), sem stofnuð var árið 1979. FCI var stofnað árið 1911 en HRFÍ fékk fulla aðild í fyrra, árið 2011, sem sýnir vel hversu ung við erum í hinum gamla virta hundaheimi, líkt og hin stutta ræktunarsaga íslenska hundsins er í ættbók HRFÍ. Hreinræktaðir hvolpar eru nú um 44 100 skráðir í ættbók hér á landi árlega og er margföld sú tala ættbókarfærð utan landssteinanna. Hvað segir það okkur ? Íslenskur fjárhundur er ekki í útrýmingarhættu, hann er upprunaleg gömul hundategund sem varðveittist í okkar landi og dó aldrei út. Hann á sér aldagamla sögu en nú stöndum við frammi fyrir stórauknum vinsældum hans. Mikil viðbót er að American Kennel Club (AKC) viðurkenndi íslenskan fjárhund sem tegund hjá sér árið 2010. Stofninn er í stöðugum vexti eftir því sem fleiri uppgötva þá gersemi sem þjóðarhundurinn okkar er. Hann nýtur vaxandi vinsælda og ber að fagna þeim vinsældum og aðstoða ábyrga ræktendur eftir mætti svo byggja megi upp góðan stofn utan landsteinanna, rétt eins og hér heima. Þetta teljum við vera tímamót fyrir okkur ræktendur og alla velunnara íslenska fjárhundsins. Við sjáum fram á áframhaldandi grósku stofnsins og enn frekari samvinnu milli ræktunarlanda. Það er því þýðingarmikið fyrir ræktunardeild íslenska fjárhundsins hér á landi að viðhalda ábyrgu starfi og kynna þessa tegund fyrir Íslendingum. Icelandic Sheepdog International cooperation (ISIC) er samvinnuverkefni 10 þjóða um málefni íslenska fjárhundsins og þar gefst DÍF tækifæri til samstarfs við aðrar ræktunardeildir hundsins. Í dag sjáum við að allt samstarf er mikilvægt og er það leið til upplýsingaflæðis svo okkur sé unnt að fylgjast með stofninum og ástandi hans í heild sinni. Í því ljósi heldur ISIC sérstakan gagnagrunn um heildarstofn íslenska fjárhundsins og hafa erfðafræðingar einmitt lagt áherslu á mikilvægi þess að líta á heildarstofninn, hvar sem er í heiminum, sem eina heild. Samstarf sem þetta er talið einstakt í hundarækt og er litið öfundaraugum af ræktendum ýmissa annarra hundategunda. Við verðum því að skilja betur hvað það þýðir að eiga hundategund, leggja til hliðar fordóma og ágreining um hundamálefni þau sem eiga ekkert skylt við þann rétt íslenska fjárhundsins að tilheyra Íslandi og halda sínum velli hér.Við getum þá haldið áfram að vera vön að eiga íslenskan hund, hér á hann heima og ber þess skýr merki. Við þökkum fyrri ræktendum íslenska fjárhundsins á Íslandi og HRFÍ að geta nú ræktað okkar tegund við góð skilyrði og viðhaldið mikilvægum áherslum í stofninum. Framtíð hundsins er björt og ekki síst í hinu stóra samfélagi hundaræktenda um allan heim. Stefanía Sigurðardóttir, Stefsstells ræktun Þorsteinn Thorsteinson, Sunnusteins ræktun Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember 2012. Sámur - 2. tbl. september 2013