Sámur 2. tbl 38. árg 2014 | Page 24

Hvar og hvernig skal finna rakka fyrir þína ræktun Fyrir ræktendur, sem eru að hefja leit að besta hugsanlega undaneldisrakkanum, eru nokkur atriði sem allir ættu að hafa í huga, sama hver tegundin er. Höfundur: Juha Kares Þýðing: Guðrún Margrét Baldursdóttir Vertu með opinn huga Nauðsynlegt er að fræðast eins vel um tegundina sína og mögulegt er. Fylgstu með tegundinni á alþjóðlegum vettvangi, hafðu alla möguleika í huga og alls ekki vera þröngsýn/n. Reyndu að hugsa út fyrir rammann. Reyndu að finna út hvaða tíkur hafa gefið bestu afkvæmin og fullvissaðu þig um að þar sé um að ræða heilbrigða, vel byggða og vel gerða einstaklinga af þeirri tegundargerð sem þér líkar. Athugaðu hvers konar syni þessar tíkur hafa eignast og hvernig bræður þeirra eru. Þegar undaneldisrakki er valinn ætti alltaf að velja þann sem er undan framúrskarandi ræktunartík. Einnig er gott að hann komi úr stóru og heilbrigðu goti; forðast skyldi rakka sem koma úr eins hvolps goti. Hafðu í huga að það eru alltaf ástæður fyrir öllu og láttu skynsemina ráða. Það er augljóst að hann er karlkyns Hittu alltaf rakkann sem þú ætlar að nota. Reyndu að eyða tíma með honum og kynnast honum, gakktu úr skugga um að skapgerðin sé góð og sterk. Ekki gera málamiðlanir með taugarnar, undaneldisrakki á ekki að vera mjög undirgefinn. Mjög undirgefnir og taugaveiklaðir hundar eru eitur fyrir alvöruræktun og geta valdið miklum skaða í ættarlínunum. Vertu einnig viss um að rakkinn hafi mikla kynhvöt og sé fær um að para tík á eðlilegan hátt. Hafðu hugfast að undaneldisrakkarnir (e. stud dogs) eru alltaf sterkustu einstaklingarnir í sínum hópi. Ef rakkinn þarf mikla örvun þá er hann annað hvort ekki góður til undaneldis eða að tíkin er ekki á réttum tíma til pörunar. Reyndu að velja örugga leið Ef mögulegt er þá skaltu reyna að komast hjá því að nota rakka sem hafa verið mikið notaðir í ræktun. Ef þú ert byrjandi myndi ég mæla með að nota rakka sem hefur sannað sig en er ekki svokallaður „matador“. Ef þú hefur öðlast reynslu í þinni ræktun þá skaltu einnig velja rakka sem ekki hafa verið notaðir áður. Veldu frekar eldri hund en rakka sem enn er hvolpur, það er mun öruggara hvað varðar heilsufarið að nota eldri hund. Skrifaðu niður þínar hugmyndir og markmið með þeirri ættartölu sem þú ert að hugsa um að búa til. Ræddu málið við reyndan ræktanda eða áhugamann um tegundina og fáðu annað álit áður en þú ákveður að nota rakkann. Vertu skapandi Byrjaðu alltaf á að skoða rakka í sem stærstu samhengi með opnum huga. Síðan skaltu líta þér nær og skoða þá sem eru nálægt. Eftir að hafa skoðað vel þá sem eru í öðrum löndum (innskot þýðanda: Á ekki við á Íslandi þar sem erfitt er að nota rakka frá öðrum löndum vegna einangrunar) og hjá öðrum ræktendum þá skaltu skoða þína eigin hunda. Ekki verða latur/löt og vertu alltaf tilbúin/n til að fjárfesta í