Sámur 1. tbl 37. árg 2014 | Page 36

Kolbrún Arna Sigurðardóttir Dýrahjúkrunarfræðingur Höfundur: Auður Sif Sigurgeirsdóttir Kolbrún Arna Sigurðardóttir starfar sem dýrahjúkrunarfræðingur á Dýraspítalanum í Garðabæ. Sem barn var hún hálfsmeik við dýr en smám saman breyttist það og í dag eru dýrin stór hluti af hennar lífi. Eflaust hafa margir aðrir dýravinir mikinn áhuga á starfi dýrahjúkrunarfræðings, sem er einkar fjölbreytt og skemmtilegt, en á sama tíma erfitt, bæði líkamlega og andlega. Sámi lék forvitni á að vita meira um Kolbrúnu Örnu, hvað felst í starfi dýrahjúkrunarfræðings og hvernig námi í dýrahjúkrun er háttað. Hvenær kviknaði áhuginn á hundum og öðrum dýrum hjá þér? Ég veit ekki alveg hvenær eða hvernig þessi áhugi kviknaði. Þegar ég ólst upp var ég mjög takmarkað í kringum dýr og var eiginlega hálfsmeik við hunda sem krakki. Ég var þó mikið í sveit innan um hesta og kýr en fann alltaf fyrir örlitlum ótta gagnvart þessum stóru skepnum. Ég var ögn ofvirk sem barn og frekar djörf og var því dugleg að koma mér í aðstæður sem ögruðu ótta mínum. Ég hlustaði takmarkað á fullorðna fólkið sem líklega hefur reynt að setja mér einhverjar hömlur í umgengni við dýr. Ég man eftir mér þegar ég var 5 ára gömul og búin að hlamma mér ofan í kassann hennar Týru gömlu sem var border collie. Ég man að ég leit upp á Týru, alsæl með að heimsækja hana í bælið hennar, en tíkin sat með eyrun aftur og beraði tanngarðinn framan í mig. Mér brá óneitanlega mikið og var fljót að forða mér upp úr kassanum. Þótt ég skildi ekki alveg hvað hafði gerst þá bar ég samt mikla virðingu fyrir friðhelgi Týru eftir þetta, kassinn var höllin hennar. Annað atvik sem ég man eftir og hefur mótað mig mikið var þegar ég var í fjósinu með frænda mínum sem var einu ári eldri en ég. Hann gekk um og heilsaði kálfunum og stóru nautunum alveg óhræddur. Ég dáðist að honum og langaði til þess að verða jafn huguð og hann. Ég manaði mig því upp í að klappa stóru nauti en þegar það baulaði hrökk ég í kút. Frændi minn hló og útskýrði 36