Sámur 1. tbl 37. árg 2014 | Page 21

Þegar afsakanirnar eru á undanhaldi og þú ferð að einbeita þér að verkefninu, hvort sem það er að fara í ræktina, borða hollari mat, bæta fjármálin eða breyta vana hjá hundinum þínum, þá ferðu að sjá árangur. Árangur og afsakanir eiga ekki leið saman. Annar mikilvægur hugsunarháttur er að hræðast ekki mistök. Ekkert hamlar árangri meira en óttinn við að gera ekki nógu vel. Mikilvægt er því að átta sig á því að þetta er ferli sem þarf sinn tíma til að mótast og þú og hundurinn þinn eruð alltaf að læra. Lærdómurinn hættir aldrei og um leið og þú hefur fyrirgefið sjálfum þér mistökin og ákveðið að læra af þeim hefur hundurinn þinn þegar fyrirgefið þér. Einnig er mjög mikilvægt að sjá fyrir sér hvernig hlutirnir eiga að verða áður en tekið er af skarið. Að hafa eitthvað plan, setja sér markmið. Í gegnum það ferli að breyta vana getur myndast mikið sjálfsöryggi, þegar maður upplifir aftur og aftur, hvort sem verið er að vinna með hund eða ekki, að verkefnið er fullt af litlum sigrum sem verða svo einn stór sigur. Þeir sem hafa upplifað þetta og eru farnir að venja sig á þennan hugsunarhátt vita hvað það er að vinna litla sigra og komast yfir hindranir sem í upphafi þóttu ómögulegar. Hvort sem þú hefur trú á að þú getir eitthvað eða ekki – hefur þú rétt fyrir þér. Að breyta vana er vinna. Það sem þarf er vilji, metnaður, agi og þrá til að halda áfram að þroskast og læra. Þessi vinna getur verið erfið til að byrja með en svo koma litlu sigrarnir og loks sá stóri, þegar góði vaninn er ekki lengur vinna, heldur hluti af lífinu. Þegar þú ert með hund sem er með hegðunarvandamál byrjar árangur hundsins hjá þér. Þú þarft að gefa honum von með því að hafa von, þú þarft að gefa honum litla sigra vegna þess að þú hefur aga, metnað og vilja til að læra og vinna vinnuna og þú þarft að fara í gegnum ferlið með opnum huga vitandi að hindranir munu koma á leiðinni. Það er þitt að ákveða hvort hindranirnar séu yfirstíganlegar eða ekki. Hvað sem þú ákveður verður það þinn raunveruleiki. Til þess að bæta smá kryddi ofan á formúluna þá sakar aldrei að æfa sig í að nota almenna skynsemi og láta egóið ekki ráða of miklu þegar verið er að þjálfa hundinn og komast yfir hegðunarvanda með honum. Egóið er okkar hugmyndir um okkur, samfélagið og hvað öðrum finnst. Það getur skemmt árangurinn okkar þegar við notum egóið fram yfir almenna skynsemi. Eiginleikinn til þess að meta aðstæðurnar eins og þær eru í raun og veru, á líðandi stund með hundinn sem kennara, hverfa oft ofan í egóið sem geymir oft okkar brengluðu hugmyndir um hvernig hlutirnir eiga að vera, samkvæmt ímynduðum raunveruleika eða áhrifum frá öðrum. Enginn kennir betur en hundurinn sjálfur og enginn staður né stund er betri til að læra en í líðandi stund. 21