Sámur 1. tbl 37. árg 2014 | Page 17

Verkefnið „Heimsóknarvinir“ á vegum Rauða krossins hefur gengið mjög vel og eru fjölmargir sjálfboðaliðar, tví- og ferfættir, sem leggja sitt af mörkum til verkefnisins. Hundar ásamt eigendum sínum fara í reglubundnar heimsóknir, til dæmis á stofnanir og heimili þar sem þeir heimsækja langveik börn, eldri borgara, fatlaða og fleiri. Verkefnið er þekkt víða um heim og eru dæmi um að hundarnir taki virkan þátt í þjálfun og endurhæfingu sjúklinga. Hundarnir eru af öllum stærðum og gerðum og hér kynnumst við einum þeirra, chihuahua-hundinum, Stormi, sem ásamt eiganda sínum, Ástu Maríu Karlsdóttur, heimsækir börnin í Rjóðrinu. Rjóðrið er skammtímavistun fyrir langveik börn. Einstaklega ljúfur hundur Stormur er átta og hálfs árs chihuahua frá Himna-ræktun. Hann er fyrsti hreinræktaði hundur Ástu Maríu og segist hún sérlega heppin með þennan frábæra hund. „Hann er Heimsóknarvinurinn Stormur Höfundur: Anja Björg Kristinsdóttir með alveg einstaklega ljúfa skapgerð en sá orðrómur hefur farið af chihuahua-hundunum að þeir séu geltandi smákvikindi. Stormur er frábært dæmi um kátan, sjálfsöruggan og blíðan hund sem nýtur þess að vera í kringum fólk, unga jafnt sem aldna.“ Stórkostleg reynsla og upplifun Stormur og Ásta María hafa verið heimsóknarvinir hjá Rauða krossinum í fjölmörg ár og hafa lengst af heimsótt börnin í Rjóðrinu. Ásta María segir reynsluna afar dýrmæta. „Að sjá augu barnanna ljóma við það að hitta Storm er það yndislegasta sem til er. Stormur nýtur sín í botn og leyfir börnunum að gera allt við sig.“ Hún segir að þegar þau mæti fyrir utan Rjóðrið og klúturinn góði sé bundinn á Storm viti hann alveg hvað sé á dagskrá. „Hann má varla vera að því að bíða á meðan ég fer úr skónum svo mikið liggur honum á að komast inn í setustofuna að hitta börnin. Hann byrjar á því að heilsa upp á öll börnin og sýnir þeim alls kyns kúnstir og fær verðlaunabita að launum. Hann situr, liggur, snýr sér í hringi og stendur á tveimur.“ Ásta María segist vera fús til að svara öllum spurningum sem vakna hjá krökkunum um Storm og hunda almennt. Stormur fær svo að kúra í fangi þeirra sem það vilja og upp í rúmi hjá sumum barnanna þar sem hann fær knús og klapp. „Mér finnst stórkostlegt að fylgjast með honum. Það er alveg ótrúlegt hvernig þessi litli hundur getur glatt fleiri en bara mig og mína fjölskyldu. Það er svo sannarlega mjög gefandi að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum.“ Lestrarvinur Stormur hefur einnig sinnt skemmtilegu verkefni undanfarin tvö ár sem svokallaður „lestrarvinur“ hjá félagasamtökunum Vigdísi (Vinir gæludýra á Íslandi). Hann hefur mætt vikulega í samlestur með nemendum úr Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi þar sem börnin lesa fyrir hann. „Mér er mjög minnisstætt atvik sem átti sér stað um daginn. Við Stormur vorum að mæta í fyrsta skipti til að hitta barnið sem átti að lesa fyrir hann. Stormur Stormur með rauða klútinn sinn sem er „einkennisbúningur“ heimsóknarvina Rauða krossins. stóð og mændi á hurðina og beið spenntur eftir því sem koma skyldi. Inn gengur svo kennarinn ásamt barninu og Stormur hleypur beint til barnsins en virti ekki kennarann viðlits! Hann var að sjálfsögðu kominn til að hitta barnið og vinna með því.“ Ásta segir að Stormur njóti þess að láta lesa fyrir sig og liggi afslappaður við hlið barnsins meðan það les fyrir hann. Hann hlustar af mikilli athygli en heimtar þó klór inn á milli. Þess má geta að umfjöllun um lestrarverkefni Vigdísar er í þessu blaði. Að lokum segir Ásta María það einstakt tækifæri að fá að vinna með hundinum sínum á þennan hátt. „Þetta er ótrúlega gefandi og ég hvet alla til að kynna sér starfsemi Rauða krossins og Vigdísar og slást í hópinn með frábæru fólki og yndislegum hundum. Þetta hefur gefið mér svo margt, að fá að fylgjast með litlu sigrunum og brosi á andliti barns er allt sem ég þarf.“ 17