Sámur 1. tbl 40. árg 2015 - Page 7

Ég heiti Herdís Hallmarsdóttir og býð mig fram sem formann félagsins okkar. Ég hef allt frá unga aldri verið hunda- og hestastelpa. Ég eignaðist minn fyrsta hund, af tegundinni Poodle, átta ára. Frá þeim tíma hef ég lengstum átt hund, þar á meðal Springer spaniel, Rough Collie og í dag á ég Ástralska fjárhunda. Frá 2008 hef ég tekið virkan þátt í starfsemi HRFÍ. Ég hef unnið sem ritari og hringstjóri á flestum sýningum félagsins sem haldnar hafa verið frá þeim tíma. Í apríl 2014 hlaut ég viðurkenningu sem alþjóðlegur sýningadómari. Ég er með réttindi til að dæma Ástralskan fjárhund, Íslenskan fjárhund, Enskan cocker spaniel, Golden Retriever og Labrador Retriever. Ég átti sæti í siðanefnd frá árinu 2009 til 2013, fyrst sem aðalmaður en síðasta árið sem varamaður. Fyrsta verk mitt í siðanefnd var að leggja til málsmeðferðarreglur til að tryggja réttláta málsmeðferð allra félagsmanna fyrir nefndinni. Á árinu 2013 tók ég sæti í aðalstjórn félagsins og hef verið varaformaður félagsins síðastliðin tvö ár. Á þeim tíma hef ég m.a. lagt áherslu á ýmsar endurbætur á regluverki félagsins sem miða að því að auka fagleg vinnubrögð. Þannig kom ég að því, ásamt framkvæmdastjóra félagsins, að semja reglur um kostnað vegna ferða fulltrúa HRFÍ erlendis. Þessar reglur eiga að tryggja faglega ákvörðunartöku um ferðir og tryggja að kostnaði sé haldið í lágmarki. Að sama skapi lagði ég til og fékk samþykktar hæfisreglur stjórnar sem gilda um þá sem gegna trúnaðarstarfi fyrir félagið. Eins og nafnið gefur til kynna er þessum reglum ætlað að stuðla að því að málefnaleg rök ráði niðurstöðu í einstökum málum. Að mínu mati eru þetta góð skref í rétta átt en ég tel að gera megi betur í að auka gagnsæi starfseminnar sem aftur eykur traust félagsmanna til starfsins. Stjórnarstarfið hefur um margt verið lærdómsríkt og ég tel mig enn hafa margt fram að færa sem nýst getur félaginu okkar. Leggja þarf áherslu á starf unglingadeildarinnar enda hlúum við með því að framtíð félagsins. Það þarf að styðja vel við mikilvægt starf ræktenda í félaginu og starfi sem lýtur að vinnu með eðli og hæfileika hundanna. Ég vil sjá HRFÍ leiðandi í hlutverki sínu sem málsvari fyrir betri hundamenningu og aðbúnaði hundafólks hér á landi. Enn vantar töluvert upp á að íslenskt samfélag viðurkenni að hundurinn er hluti fjölskyldunnar. Hundafjölskyldur eiga rétt á að taka þátt í mannlífinu á sama hátt og aðrir. Í dag eru ýmsar takmarkanir sem hundafólk þarf að þola án þess að góðar ástæður búi þar að baki. Bann við því að halda viðburði með hundum í íþróttamannvirkjum, takmarkanir á því að fá að ferðast með almenningssamgöngum og gista á hótelum eru dæmi um skerðingar sem eiga sér hvergi hliðstæðu í heiminum. Það er kominn tími til að þetta breytist og ég vil leggja mitt af mörkum. Sámur 1. tbl. 40. árg. maí 2015 · 7