Myndir mánaðarins Nóvember 2018 tbl. 298 Bíómyndir | Page 10

Bíófréttir – Væntanlegt „That’s a wrap on MIB for me“ skrifaði Chris Hemsworth með þessari sjálfu sem hann tók og birti á Instagram-reikningi sínum 18. október í tilefni af því að tökum á þeim atriðum nýju Men in Black-myndarinnar sem hann leikur í var lokið. Með honum á myndinni er leikstjórinn F. Gary Gray og Tessa Thompson sem leikur aðalhlutverkið á móti honum, Agent M. Sjálfur leikur Chris Agent H, en eins og flestir vita felst háleynilegt starf þeirra M og H í að fylgjast með öllum þeim aragrúa geimvera sem búa á Jörðinni án þess að hinn almenni borgari hafi hugmynd um tilvist þeirra. Við og við hefur það gerst að þessar geimverur geri af sér einhvern óskunda og þá er það þeirra M og H að grípa inn í og bæta skaðann, eða jafnvel eyða viðkomandi geimverum láti þær ekki segjast. Annars vitum við lítið sem ekkert um söguþráð myndarinnar og verðum því í bili að láta okkur nægja umsögn Chris sem skrifaði einnig við sjálfuna „... cheers for the fun times, big laughs and solid memories. Can’t wait to show what we’ve put together.“ Við getum varla beðið heldur en myndina á að frumsýna 14. júní 2019. Melissa McCarthy, sem hingað til hefur aðallega leikið í léttum gamanmyndum og försum eins og flestir vita, snýr blaðinu hressilega við í sinni nýjustu mynd, Can You Ever Forgive Me, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto og hefur fengið frábæra dóma. Sér í lagi þykir Melissa góð í aðalhlutverkinu, svo góð reyndar að hún er þegar þetta er skrifað komin á topp 10-listann yfir þær leikkonur sem líklegastar þykja til að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna á næsta ári fyrir besta leik í aðal- hlutverki. Myndin segir sanna sögu rithöfundarins Lee Israel (1939– 2014) sem eftir að hafa átt ágætan feril sem ævisagnahöfundur féll í ónáð eftir að bók hennar um snyrtivörufrumkvöðulinn Estée Lauder fékk hroðalega dóma og var auk þess gefin út í andstöðu við Estée. Slypp og snauð brá Lee á það ráð að afla tekna með því að falsa alls konar bréf frá þekktum rithöfundum og selja til safnara, en í allt er talið að hún hafi falsað og selt um 400 slík bréf áður en upp um hana komst. Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin á kvikmyndahátíðinni í Toronto, má sjá þau Melissu, leikstjóra myndarinnar, Marielle Heller, og Richard Grant sem leikur aðalkarlhlutverkið í myndinni, en hún fer ekki í almenna kvikmyndahúsadreifingu í Evrópu fyrr en eftir áramót. 10 Myndir mánaðarins Þarna sjáum við leikstjórann Tim Burton brosa breitt við gerð sinnar nýjustu myndar, Dumbo, en hún sækir efnið í samnefnda fjórðu teiknimynd Walts Disney sem var frumsýnd árið 1941 og var aftur byggð á bók Helenar Aberson og Harolds Pear. Myndin er um leið enn ein myndin sem byggð er á eldri teiknimyndum Disney þar sem leiknum atriðum og tölvuteiknuðum er blandað saman og í helstu hlutverkum eru þau Eva Green, Colin Farrell, Michael Keaton, Danny DeVito, Alan Arkin, Nico Parker og Finley Hobbins. Sagan gerist að mestu í fjölleikahúsi sem má muna sinn fífil fegurri enda hefur áhorfendum snarfækkað að undanförnu, sirkusstjóranum Max Medici til mikillar mæðu. Þá fæðist lítill fíll inn í sirkusfjölskylduna sem í fyrstu er talin vanskapaður því hann hefur miklu stærri eyru en aðrir fílar. Fljótlega kemur þó í ljós að Dumbo, eins og litli fíllinn er nefndur, er enginn venjulegur fíll að öðru leyti og að þessum stóru eyrum hans fylgja þau undur að hann getur flogið. Þetta leiðir til þess að vinsældir fjölleikahússins snaraukast en um leið kallar Dumbo á athygli skuggalegra manna sem vilja gjarnan eignast hann, sjálfum sér til hagsbóta. Dumbo er á dagskrá kvikmyndahúsanna í mars 2019. Fjórða Toy Story-myndin er væntanleg í kvikmyndahúsin í sumar, nánar tiltekið 21. júní. Um leið er þetta 21. myndin frá Pixar, en fyrsta Pixar-myndin sem var frumsýnd árið 1995 var einmitt fyrsta Toy Story- myndin sem sló í gegn um allan heim. Ekki hefur verið gefið mikið upp um söguþráðinn í nýju myndinni annað en að þeir félagar Viddi og Bósi ljósár leggja upp í langferð til að finna brúðuna Bo Peep sem Viddi ann hugástum en hefur nú af einhverjum ástæðum orðið viðskila við hin leikföngin og týnst. Öruggt má telja að í þeirri ferð lendi þeir Viddi og Bósi í ýmsum spennandi ævintýrum eins og þeirra er von og vísa. Nánast allir þeir sömu og töluðu fyrir persónurnar í enskri talsetningu fyrri myndanna mæta hér aftur til leiks, þar á meðal Tom Hanks sem Viddi og Tim Allen sem Bósi ljósár en leikstjóri í þetta sinn er Josh Cooley. Aðalhöfundar sögunnar eru hins vegar þeir Andrew Stanton og John Lasseter sem skrifuðu einnig handrit tveggja fyrstu Toy Story- myndanna og hafa komið að mörgum öðrum Pixar-myndum.