Myndir mánaðarins MM Mars 2019 Bíóhluti | Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt 12 Næsta Bond-mynd heitir Shatterhand Segðu bara shazam! Eftir að hafa tafist í a.m.k. heilt ár vegna endurtekinna handritsskrifa og ekki síður vegna þess að Danny Boyle, sem hafði tekið að sér leikstjórnina, dró sig út úr vinnslunni í ágúst í fyrra, er loksins komið að því að hefja tökur á næstu James Bond-mynd, þeirri tuttugustu og fimmtu í röðinni. Leikstjóri verður Cary Joji Fukunaga (Beasts of No Nation) og samkvæmt tilkynningu frá framleiðandanum er vinnuheiti myndarinnar Shatterhand, sem talsverðar líkur eru reyndar á að verði hið endanlega heiti, en Shatterhand er gamalt dulnefni eins af erkióvinum James Bond, Ernst Stavro Blofeld. Með aðalhlutverkið fer í fimmta sinn Daniel Craig og má reikna með að þetta verði í síðasta sinn sem hann leikur kappann, en eins og margir muna vafalaust stóð það tæpt eftir síðustu mynd að hann ætti endurkvæmt á hvíta tjaldið sem Bond. Tökur munu hefjast 6. apríl en ekkert hefur verið látið uppi um söguna og verða menn sennilega að bíða allt fram í desember áður en fyrsta stiklan verður frumsýnd. Shatterhead er enn skráð með 8. apríl 2020 sem frumsýningardag en líklegt þykir að það muni breytast. Sjöunda myndin úr ofurhetjuheimi DC- Comics er væntanleg í kvikmyndahúsin 5. apríl en þar fáum við að fylgjast með ævintýrum hins munaðarlausa, fjórtán ára Billys Batson sem í byrjun sögunnar er að flytja inn á sitt sjöunda fósturheimili eftir að hafa verið úthýst af því sjötta vegna slæmrar hegðunar, rétt eins og í hin fimm skiptin. Kvöld eitt þegar hann er á flótta undan strákum sem ætla að berja hann lendir hann í einhvers konar hliðarveröld þar sem dularfull persóna gefur honum krafta til að breyta sér í ofurhetjuna Shazam! með því einu að segja þetta orð. Til að byrja með hefur Billy ekki hugmynd um hvaða ofurhetjukraftar það eru eiginlega sem hann ræður yfir en auðvitað kemur það í ljós þegar hann neyðist til að takast á við hinn hræðilega dr. Thaddeus Sivana. Aprílhrollurinn Það styttist í þetta! Tveir hrollvekjandi tryllar verða á dagskrá kvikmyndahúsanna í apríl sem báðir lofa þeim fjölmörgu sem gaman hafa af því að láta hræða sig dálítið mjög góðu. Sú fyrri er Pet Sematary eftir leik- stjóranna Kevin Kölsch og Dennis Widmyer en hún er eins og flestir eflaust vita gerð eftir einni af þekktustu bókum Stephens King. Sú seinni heitir The Curse of La Llorona og er eftir Michael Chaves, framleidd af James Wan. Hún segir frá félagsráðgjafa sem í framhaldi af því að hafa ekki tekið mark á hættumerkjunum í fari móður sem síðan er talin hafa myrt börnin sín dregst sjálf inn í veröld þar sem hennar eigin geðheilsu er ógnað af verulega illum öflum. Lesið nánar um báðar þessar myndir í næsta blaði sem kemur að venju út í lok mars. Við hér á Myndum mánaðarins höfum ekki farið leynt með að við hlökkum alveg óskaplega til að sjá Avengers: Endgame eftir að hafa beðið þess í ofvæni í ellefu mánuði að fá að vita hvað í ósköpunum þær ofurhetjur sem lifðu af árás Thanosar í Infinity War munu taka til bragðs nú þegar veröld þeirra hefur verið lögð í rúst, eða svo gott sem. Við vitum auðvitað að Captain Marvel kemur til sögunnar og á alveg örugglega eftir að blása hinum buguðu bæði nýjan kraft og baráttuanda í brjóst þannig að hægt sé að leggja á ný til atlögu við illvirkjann, en það sem við getum varla beðið eftir að fá að vita er hvort þær ofurhetjur sem dóu (eða leystust upp) eigi afturkvæmt og þá hvernig það verður látið gerast. Dóu þær í alvöru og endanlega eða voru þær bara sendar inn í einhvers konar dulinn heim þar sem þær bíða eftir að komast til baka? Þetta hefur verið stóra spurningin í okkar huga og svarið kemur í apríl. Myndir mánaðarins