Myndir mánaðarins MM Janúar 2019 DVD VOD og tölvuleikir | Page 6

Stjörnuspá mánaðarins Vatnsberinn 20. jan. - 18. feb. Ákveddu að taka þér almennilegt tak á nýja árinu og hætta þessari vitleysu. Þú saknar einhvers, sennilega pokans með súkkulaðirúsínunum, en finnur hann aldrei aftur. Guðmundur át þær. Tvíburarnir 21. maí - 21. júní Þótt tveir sinnum tveir séu fjórir þá þýðir það ekki að sjö sinnum sjö séu fjórtán. Þetta þarftu að skilja áður en þú verður þér til skammar. Það lafir eitthvað grængult út úr nefinu á þér. Vogin 23. sept. - 23. okt. Þér finnst eins og það sé að birta til í lífi þínu enda er sólin lengur á lofti þessa dagana með hverjum deginum sem líður. Hringdu í alla sem þú þekkir og fáðu þá til að gefa þér tvöþúsundkall. Fiskarnir 19. feb. - 20. mars Þú missir algjörlega stjórn á þér í skila- bókaröðinni og ákveður að eiga bara þrjár alveg eins bækur. Hafðu engar áhyggjur því það eru margir í þessum sporum. Þú kaupir skóflu og brauðrist. Krabbinn 22. júní - 22. júlí Einhver sem þú hefur aldrei séð áður kemur að máli við þig þann tólfta og vill að þú lánir sér rauðu smekkbux- urnar með gyllta hamrinum. Ekki gera það. Þetta er gildra. Farðu á fyrirlestur. Sporðdrekinn 24. okt. - 21. nóv. Áramótaheit eru ágæt til síns brúks en þetta sem þú ætlar að gera er svo gjör- samlega vonlaust eitthvað að annað eins hefur ekki sést síðan menn reyndu að breyta vatni í vín og elda sér gull. Hrúturinn 21. mars - 19. apríl Einhver sem þú þekkir ágætlega og er jafnvel innan fjölskyldunnar, sennilega með ljóst hár og á það til að hjóla snemma á morgnana býður þér út að borða. Þú ferð í ferðalag til Marokkó. Ljónið 23. júlí - 22. ágúst Þú ferð út að ganga fljótlega eftir ára- mót og finnur útbrunna flugeldaköku á gangstéttinni og a.m.k. tvö rakettu- prik. Góður vinur þinn finnur bréf utan af fílakaramellu. Svo ferðu aftur heim. Bogmaðurinn 22. nóv. - 21. des. Notaðu fríið og tækifærin eftir áramót til að læra á lútu. Fimm af þeim sem eru í Bogmannsmerkinu og heita Unnar, Unnsteinn eða Unndór lenda heldur betur í lukkupottinum þann sextánda. Nautið 20. apríl - 20. maí Árið 2019 á eftir að reynast farsælt, gef- andi og viðburðaríkt og afar ábatasamt fjárhagslega. Þetta verður í stuttu máli langbesta ár sem þú hefur lifað. Gildir ekki fyrir þá sem eru með gleraugu. Meyjan 23. ágúst - 22. sept. Veturinn verður dimmur, drungalegur og kaldur hjá þér en það gerir ekkert til því hann verður það hjá öllum. Þú færð bjartsýniskast þann tuttugasta og fyrsta en svo verður allt hundfúlt aftur. Steingeitin 22. des. - 19. jan. Þú borðaðir allt of mikið um jólin og þyngdist um þrettán kíló og þrjátíu og tvö grömm. Allar vonir þínar um gott ár verða að engu þegar þú verður undir vélskóflu, sennilega þann fimmtánda. Minningar mánaðarins Jólamyndirnar 1978 Að þessu sinni ætlum við að kíkja fjörutíu ár aftur í tímann og sjá upp á hvað kvikmyndahúsin í Reykjavík buðu á milli jóla og nýárs árið 1978. Þetta var auðvitað löngu fyrir tíma netsins og meira að segja fyrir tíma myndbandanna þannig að segja má að fyrir utan takmarkað framboð af bíómyndum á einu sjónvarpsstöðinni, RÚV, var hvergi hægt að sjá bíómyndir annars staðar en í kvikmyndahúsum lands- ins, sem auk þess buðu bara upp á einn sal hvert og eina mynd hverju sinni en voru ekki fjölsala eins og þau urðu síðar og eru öll í dag. Kvikmyndahúsin í Reykjavík voru þá sjö talsins og hétu Gamla bíó, Tónabíó, Stjörnubíó, Austurbæjarbíó, Nýja bíó, Háskólabíó og Laugarásbíó og eru tvö þau síðastnefndu þau einu sem enn standa. Til að fá upplýsingar um hvaða myndir væru í boði var einfaldast að fletta því upp í Morgunblaðinu þar sem kvikmyndahúsin auglýstu öll á sama stað á hverjum degi í aftari hluta blaðsins, þar sem ýmis annars konar mannfagnaður var einnig auglýstur ásamt sýningum Þjóðleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur. Og það er einmitt þangað sem við sækjum minningu mánaðarins að þessu sinni, þ.e. á bls. 26 og 27 í 298. tölublaði Morgunblaðsins þann 29. desember 1978. 6 Myndir mánaðarins Jólamyndin í Gamla bíó 1978 var Lukkubíllinn í Monte Carlo eða Herbie Goes to Monte Carlo en hún var þriðja myndin um Volkswagen- bjölluna Herbie sem hafði slegið hressilega í gegn í myndinni The Love Bug tíu árum fyrr. Í Tónabíó var jólamyndin nýjasta Bleika pardus-myndin, Bleiki pard- usinn leggur til atlögu, eða The Pink Panther Strikes Again, sem hafði reyndar verið frumsýnd ytra tveimur árum fyrr, eða um jólin 1976, en á þessum tíma þótti það ekkert tiltökumál þótt nýjustu myndirnar í bíóhúsunum væru í raun eins til þriggja ára gamlar. Háskólabíó bauð hins vegar upp á glænýja mynd um jólin 1978, rómantísku kómedíuna Himnaríki má bíða, eða Heaven Can Wait eftir þá félaga Warren Beatty og Buck Henry og með þeim fyrrnefnda í aðalhlutverki ásamt Julie Christie, Dyan Cannon og Charles Grodin. Myndin sló í gegn um allan heim, var tilnefnd til níu Óskarsverðlauna og varð þegar upp var staðið ein tekjuhæsta mynd ársins 1978. Í Austurbæjarbíó var boðið upp á nýjustu Clint Eastwood-myndina The Gauntlet, sem á íslensku fékk heitið Í kúlnahríð (það var skylda í þá daga að íslenska heiti erlendra kvikmynda), en hún hafði verið frumsýnd ytra um jólin 1977. Myndin var sjötta mynd Clints sem leikstjóra og lék hann sjálfur aðalhlutverkið á móti Sondru Locke sem var einnig sambýliskona hans á þessum tíma. Myndin Morð á miðnætti, eða Murder by Death reyndist jólamynd Stjörnubíós 1978 og var henni lýst í auglýsingum sem „nýrri amerískri úrvalssakamálakvikmynd í litum og sérflokki“. Reyndar var um að ræða alveg ágætis grínskotna sakamálamynd sem Neil Simon skrifaði og skartaði Peter Falk, Alec Guinness, Peter Sellers, Elsu Lanchester, David Niven og fleiri þekktum leikurum þess tíma í aðalhlutverkum ásamt sjálfum rithöfundinum Truman Capote sem þarna lék í sinni fyrstu og síðustu mynd. Reyndar þótti hann svo góður í hlutverkinu að hann var tilnefndur til Golden Globe-verðlauna 1977 sem besti nýliðinn. Myndin hafði sem sagt verið frumsýnd í Bandaríkjunum sumarið 1976 og var því trauðla „ný“, eins og stóð í auglýsingunni, a.m.k. ekki samkvæmt viðmiðum sem gilda almennt í dag. Laugarásbíó bauð hins vegar upp á glænýja mynd eins og Háskólabíó en það var framhaldið á Steven Spielberg-myndinni Jaws, Jaws 2 í leikstjórn Jeannot Szwarc. Myndin þótti ekki alslæm en stóð samt langt að baki frummyndinni sem hafði verið frumsýnd þremur árum fyrr og notið mikilla vinsælda. Því gátu þau Roy Scheider og Lorraine Gary sem léku Brody-hjónin á ný ekki einu sinni bjargað. Í Nýja bíó var svo boðið upp á grínsmellinn Þöglu myndina, eða Silent Movie eftir Mel Brooks sem lék einnig aðalhlutverkið ásamt Dom DeLuise, Marty Feldman og Sid Caesar, ásamt frægum gesta- leikurum eins og Burt Reynolds, Lizu Minnelli, Paul Newman, James Caan og fleirum. Þessi mynd hafði verið frumsýnd í Bandaríkjunum sumarið 1976 og var því orðin tveggja og hálfs árs gömul þegar hún var fyrst sýnd á Íslandi.