Myndir mánaðarins MM Janúar 2019 Bíóhluti | Page 6
Nú árið er liðið ...
Tölublað númer 300
Já, blaðið sem þú ert hér að lesa er 300.
tölublað Mynda mánaðarins sem um
leið á 25 ára afmæli, en fyrsta tölublaðið
kom út í febrúar árið 1994. Upphaflega
hét blaðið Myndbönd mánaðarins enda
fjallaði það fyrstu árin eingöngu um VHS-
útgáfuna á Íslandi og var dreift á þeim
fjölmörgu myndbandaleigum sem þá voru
starfræktar um allt land. Seinna, í kringum
2002 þegar DVD-diskarnir voru komnir til
sögunnar og voru farnir að leigjast meira
en VHS-spólurnar, var heiti blaðsins breytt
í Myndir mánaðarins og hefur það heiti
haldið sér síðan fyrir utan að forskeytinu
„Bíó“ var bætt við og forsíðurnar urðu
tvær þegar kvikmyndahúsin byrjuðu að
kynna sínar myndir í blaðinu árið 2006.
Síðan hefur sú þróun orðið að nánast allar
myndbandaleigur eru horfnar og í staðinn
eru komnar sjónvarpsleigur Símans og
Vodafone sem hafa nú um nokkurra ára
skeið séð landsmönnum fyrir leiguefni.
Blaðið hefur frá upphafi komið út rétt fyrir hver mánaðamót, ávallt
verið ókeypis og varð fljótlega að mest lesna tímariti landsins. Þeirrar
góðu stöðu hefur blaðið notið síðan og eftir að myndbandaleigurnar
hurfu að mestu af markaðinum hefur því verið dreift í smásöluversl-
unum, með Íslandspósti og í kvikmyndahúsum. Blaðið hefur um
árabil verið prentað í 20 þúsund eintökum sem oftast eru uppurin
á dreifingarstöðum upp úr miðjum mánuði, en netútgáfu þess
hefur einnig verið að finna á kvikmyndir.is um margra ára skeið og
á myndirmanadarins.is þar sem tengt er beint í stiklur myndanna og
lesendum er boðið að gerast áskrifendur – ókeypis að sjálfsögðu.
Við sem höfum staðið að útgáfu og gerð
Mynda mánaðarins frá upphafi fögnum
auðvitað þessum merku tímamótum. Á
þann fögnuð ber þó nokkurn skugga að
þessu sinni því um leið er þetta í fyrsta
sinn sem við fögnum afmæli blaðsins
án eins af máttarstólpum þess svo til frá
upphafi, Ómars Friðleifssonar, sem lést
langt um aldur fram úr krabbameini þann
13. október sl., aðeins 48 ára að aldri.
Ómar, sem var alltaf kallaður Ommi, vann alla sína starfsævi hjá
Sambíóunum og varð yfirmaður hjá Sam-myndböndum árið 1997
um leið og hann varð fulltrúi fyrirtækisins í stjórn Myndmarks,
útgáfufélags blaðsins. Í þá daga var lítið hægt að nota netið til
gagnaöflunar og allar upplýsingar sem fáanlegar voru um væntan-
legar myndir voru í prentuðu formi sem þurfti að vinna bæði texta
og myndefni úr. Ásamt öðru sá Ómar lengi vel skilmerkilega um að
safna saman þessu efni fyrir hönd síns fyrirtækis til að hægt væri að
gera blaðið og koma því út fyrir mánaðamót og var það samstarf
ætíð gott og ánægjulegt. Árið 1999 varð Ommi svo formaður Mynd-
marks og sat síðan í stjórninni eftir það og allt fram í júní 2016.
Ommi var einlægur áhugamaður um kvikmyndir og tónlist og bjó
yfir hafsjó af fróðleik um hvort tveggja. Hann átti óteljandi marga
vini sem allir geta borið vitni um að þar fór einhver heilsteyptasti
maður og besti vinur sem hægt er að hugsa sér, blíður, skemmtilegur,
áhugasamur og með endalausan húmor fyrir bæði sjálfum sér og
öllu öðru. Um leið bjó hann yfir þeirri þægilegustu og bestu nærveru
sem hægt er að hafa. Omma verður sárt saknað af öllum sem þekktu
hann og við á Myndum mánaðarins sendum ættingjum hans og
nánustu aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur vegna frá-
falls hans. Veröldin væri sannarlega betri ef allir væru eins og Ommi.
6
Myndir mánaðarins
Íslandstenging ársins
Þær ánægjulegu fréttir fyrir íslenska kvik-
myndagerð bárust um miðjan desember að
Óskarsverðlaunahafinn Jodie Foster hefði
ákveðið að standa að bandarískri endurgerð
myndarinnar Kona fer í stríð eftir Benedikt
Erlingsson og bæði leikstýra henni og leika hina kraftmiklu Höllu
sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur í frumútgáfunni, en fær þó
væntanlega annað nafn í útgáfu Jodie. Frekari upplýsingar liggja
ekki fyrir enda stutt síðan þessi ákvörðun var tekin og verður
sannarlega gaman að fylgjast með framvindunni, svo ekki sé nú
talað um þegar fyrsta stiklan verður frumsýnd og svo myndin sjálf.
Þetta verður fimmta myndin sem Jodie leikstýrir en hún hefur
fjórum sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik og tvisvar
unnið hann, þ.e. fyrir myndirnar The Accused árið 1988 og Silence
of the Lambs árið 1992. Um leið og við útnefnum þessa frétt sem
Íslandstengingu ársins 2018 viljum við nota tækifærið og hvetja
alla sem ekki hafa séð myndina að drífa í því, en hún verður sýnd
nokkrum sinnum í Bíó Paradís á milli jóla og nýárs auk þess sem
hún er fáanleg á sjónvarpsleigunum. Þess ber að geta að Kona fer
í stríð var framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í ár en því miður
komst hún ekki í gegnum niðurskurðinn og er úr leik í þeirri keppni.
Leiksigur ársins
Leiksigrar ársins, bæði hjá konum og körlum, eru auðvitað margir
eins og allar tilnefningarnar til hinna ýmsu leiklistarverðlauna
sýna en að öllum öðrum ólöstuðum er val okkar auðvelt að þessu
sinni. Leiksigur ársins er leiksigur Lady Gaga í A Star is Born.
Lady Gaga var auðvitað stórstjarna fyrir og virtur listamaður en
hverjum gat dottið í hug (fyrir utan Bradley Cooper auðvitað)
að hún ynni jafnafgerandi leiksigur og hún gerir í hlutverki Ally?
Eiginlega engum, ekki einu sinni henni sjálfri, enda var hún mjög
treg til að taka að sér svona stórt hlutverk og þurfti Bradley að
beita sínum ýtrasta sjarma til að fá hana til að segja já. Ljóst er
að hann vissi sínu viti og má eiginlega segja að hann hafi haft
jafnmikla trú á henni sem leikkonu og persóna hans í myndinni
sjálfri, Jack, hefur á Ally sem tónlistarkonu. Skemmtileg speglun.