Myndir mánaðarins Maí 2017 tbl. 280 bíóhluti | Page 18

Bíófréttir – Væntanlegt Aðsóknarmet slegið Vin Diesel tekur hér glaðhlakkalegur á svip sjálfu af sér og meðleikkonu sinni í Fast & Furious-seríunni, Michelle Rod- riguez, fyrir utan kvikmyndahús í New York 11. apríl þegar myndin var frumsýnd, en eins og sjá má á skiltinu fyrir aftan þau heitir hún The Fate of the Furious í Bandaríkjunum. Sennilega hefur Vin síðan ekki brosað minna dagana á eftir þegar í ljós kom að þessi áttunda mynd seríunnar sló aðsóknarmet á sinni fyrstu sýningarhelgi þegar hún halaði inn 532,5 milljónir dollara í aðgöngumiðasölu. Þar með sló hún fyrra met sem Star Wars: The Force Awakens átti, en það hljóðaði upp á 529 milljónir dollara. Þess má geta að The Force Awakens hafði slegið út aðsóknarmet Jurassic World sem var 525,5 milljónir dollara á fyrstu sýningarhelgi, en hún hafði slegið út Harry Potter-myndina The Deathly Hallows Part 2 sem halaði inn 483,5 milljónir dollara árið 2011. Metin hafa því fallið óvenju hratt að undanförnu, sem eru auðvitað góðar fréttir fyrir kvikmyndaiðnaðinn. Margir hafa hins vegar velt því fyrir sér hvers vegna Fast & Furious-serían nýtur slíkra ofurvinsælda sem raun ber vitni. Verður þar fátt um svör önnur en þau að fyrir utan að svona seríur laða að sér sömu áhorfendurna aftur og aftur sem eru farnir að þekkja persónurnar svo vel að bíóferðin er að sumu leyti eins og heimsókn til vina, þá finnst bara svo mörgum gaman að góðum hasar og áhættuatriðum að kröfur um raunsæi víkja fyrir skemmtanagildinu. Ætli lokaniðurstaðan sé því ekki þegar allt kemur til alls sú ofureinfalda skýring að Fast & Furious 8 er bara svona fjári skemmtileg mynd. Alltaf á fullu Eins og lesendur blaðsins sjá hér framar í blaðinu er stórmyndin The Mummy með Tom Cruise í aðalhlutverki væntanleg í bíó í júní og bíða aðstandendur hennar vafalaust spenntir eftir að sjá hvernig móttökurnar verða enda mikið í hana lagt og því mikið undir. Margt kvikmyndaáhugafólk bíður líka spennt, sér í lagi hörðustu aðdáendur Toms sem finnst hann alltaf góður í hverju því hlutverki sem hann tekur að sér. Eftir 36 ár í bransanum þar sem hann hefur verið á fullu nánast allan tímann veit Tom hins vegar sjálfur eins og er að hans hlutverki í myndinni er lokið og ekkert annað að gera fyrir hann en að einbeita sér að næstu verkefnum, sem eru næg. Strax eftir að hafa lokið við leik í The Mummy sneri hann sér því að leik í nýjustu mynd leikstjórans Dougs Liman, American Made, þar sem hann leikur Barry Seal, en sá starfar fyrir CIA við að klófesta eiturlyfjainnflytjendur í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Búast má við góðri mynd enda er Doug Liman þekktur fyrir gæði og gerði m.a. myndina Edge of Tomorrow sem Tom lék aðalhlutverkið í, og mun næst gera myndina Luna Park, sem verður einnig með Tom í aðalhlutverki. Eftir American Made sneri Tom sér hins vegar rakleitt að gerð sjöttu Mission Impossible-myndarinnar og við tökur á henni urðu Parísarbúar öðrum fremur áþreifanlega varir enda voru nokkur atriði hennar tekin upp við og í grennd við Champs-Élysées- breiðstrætið þar sem Sigurboginn er, þ. á m. fyrir framan verslun Marks & Spencer sem stendur einmitt við Champs-Élysées. Þar þeysti Tom m.a. um á kraftmiklum mótorfák í byrjun apríl og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. Mission Impossible 6 verður ef allt gengur upp einn af sumarsmellunum á næsta ári. 18 Myndir mánaðarins