Bíófréttir – Væntanlegt
Komið , séð og sigrað
Myndin hér til vinstri var tekin í Tókíó á dögunum þar sem Chris Pratt var staddur ásamt þvottabirninum Rocket til að vera viðstaddur forsýningu á nýju Guardians of the Galaxy-myndinni en hún verður frumsýnd um allan heim í lok síðustu viku aprílmánaðar , nokkrum dögum eftir að þetta blað kemur út . Þegar þetta er skrifað hafa enn engir dómar birst um myndina en 311 notendur Imdb . com , sem hafa væntanlega séð myndina á einhverri af fjölmörgum forsýningum , hafa gefið henni 9,6 í meðaleinkunn . Auðvitað er ekki alveg að marka það þar sem reikna má með að flestir af þeim fyrstu sem gefa svona stórum myndum einkunn á Imdb séu jákvæðustu og heitustu aðdáendurnir , en samt má alveg reikna með að myndin sé mjög góð og ekki síðri en fyrri myndin , enda eru aðstandendur og leikarar allir þeir sömu og þá .
Chris Pratt , sem leikur aðalhlutverkið , má a . m . k . vera ánægður með sinn hlut en frægðarsól hans hefur risið hratt á undanförnum árum og ef miðað er við myndirnar sem hann er með á dagskránni á næstu árum og áhugafólk og aðdáendur geta kynnt sér á netinu , mun hún ekki hníga til viðar í bráð .
Chris ásamt eiginkonu sinni , Önnu Faris , og syni þeirra Jack við Hollywood-breiðstrætið í Los Angeles 21 . apríl þegar Chris fékk sína eigin stjörnu í Walk of Fame-gangstéttina .
Jack snýr aftur
Allt frá því að Jack Nicholson lék fyrir rúmum átta árum í myndinni How Do You Know eftir James L . Brooks hefur sá orðrómur verið á kreiki að hann hafi endanlega dregið sig í hlé frá kvikmyndaleik , enda orðinn áttræður . Reyndar var hann spurður út í þennan orðróm af blaðamanni Variety árið 2013 , en þá þvertók hann fyrir að vera hættur . „ Ég sagðist aldrei vera hættur að leika ,“ sagði hann þá við blaðamanninn , „ ég sagðist vera hættur að leika við konur “. Þetta grín hans nægði samt ekki til að þagga niður orðróminn enda tók hann ekki að sér nein hlutverk þótt honum hafi eflaust verið boðin mörg á undanförnum árum .
En nú hefur kappinn endanlega kveðið niður sögurnar um að hann sé hættur því hann er nú að fara að leika í bandarískri útgáfu af þýsku myndinni Toni Erdman sem er af mörgum talin ein besta mynd ársins 2016 og hlaut tilnefningu sem besta erlenda myndin á bæði BAFTA- , Golden Globe- og Óskarsverðlaunahátíðunum . Jack mun að sjálfsögðu leika titilhlutverkið og það verður gaman að sjá útkomuna og hvernig hann fer með hina vægast sagt sérstöku persónu sem Toni Erdman er .
Skipt um útlit
Matthew McConaughey hefur á undanförnum árum skipt ótt og títt um útlit , en hann hefur tamið sér þann stíl að á meðan hann leikur einhvern í einhverri myndinni eða á sviði þá lítur hann út eins og sú persóna allan tímann , líka utan sviðs .
Þetta útlit sem hann skartar á ljósmyndinni hér fyrir ofan er útlit manns að nafni Richard Wershe Sr ., en hann var ( og er enn ) faðir lífstíðarfangans Richards „ White Boy Rick “ Wershe Jr . sem árið 1987 , þegar hann var bara 16 ára , gerðist uppljóstrari fyrir bandarísku alríkislögregluna og mataði hana á ýmsum þeim upplýsingum um eiturlyfjasala og eiturlyfjainnflytjendur sem hann komst yfir . En þegar Rick varð sjálfur uppvís að eiturlyfjamisferli var hann handtekinn og þótti mörgum mjög undarlegt og afar strangt að hann skyldi dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir glæpinn þrátt fyrir að ekkert ofbeldi hafi komið við sögu . Á undanförnum árum hefur málið síðan vakið vaxandi athygli enda hefur fjölskylda Ricks og Rick sjálfur barist fyrir frelsi hans allar götur síðan þessi strangi dómur féll og er þeirri baráttu hvergi nærri lokið . Myndina , sem heitir White Boy Rick , á að frumsýna í janúar á næsta ári .
16 Myndir mánaðarins