Nú árið er liðið ...
Brúðkaupsmynd ársins
Ástralska leikkonan Margot Robbie gekk í hjónaband 18 . desember með unnusta sínum til þriggja ára , Tom Ackerley , og tókst þeim að leyna brúðkaupinu alveg gersamlega fyrir heimspressunni sem vissi ekki af því frekar en flestir aðdáendur ( um 50 nánustu ættingjar þeirra Margot og Tom sóttu brúðkaupið ), fyrr en þriðjudaginn 20 . desember að Margot birti þessa ljósmynd á Instagram af sér , Tom og hringnum . Myndin varð heimsfræg samstundis , enda frumleg með eindæmum og fer létt með að vera útnefnd brúðkaupsmynd ársins .
Endurkoma ársins
Í nokkur ár eftir að Mel Gibson sendi frá sér sem leikstjóri myndirnar The Passion of the Christ og Apocalypto glímdi hann við alls konar persónuleg vandamál , lenti í heiftarlegum skilnaði , var tekinn fullur oftar en einu sinni úti að aka , lét falla ummæli um samstarfsfólk sitt og um gyðinga almennt sem féllu í vægast sagt grýttan farveg og fleira og fleira sem tengja má við stjórnlausa áfengismisnotkun hans .
Það héldu því margir um tíma að Mel væri búinn að vera í kvikmyndum . Það afsannaði hann hins vegar hressilega á árinu 2016 þegar hann sendi frá sér hina frábæru mynd Hacksaw Ridge sem enginn vafi leikur á að er á meðal bestu mynda ársins og aflar Mel um leið útnefningarinnar sem „ endurkoma ársins “.
Amber og Johnny Skilnaðir ársins
Brad og Angelina
Þegar litið er yfir fréttir af frægum leikurum sem skildu eða slitu sambandi sínu á árinu 2016 kemur í ljós að slík mál eru yfir fimmtíu talsins og því af nægu að taka . Enginn vafi leikur samt á að tvö málanna vöktu meiri athygli en önnur , annars vegar skilnaður þeirra Johnnys Depp og Amber Heard og hins vegar skilnaður Brads Pitt og Angelinu Jolie .
Um tíma virtist sem skilnaður Johnnys og Amber ætlaði að verða á meðal þeirra hatrömmustu um langt skeið enda sakaði Amber Johnny um ofbeldi , bæði andlegt og líkamlegt . Svo fór þó að sættir náðust á milli þeirra og fréttir af deilunum lognuðust út af eftir nokkrar vikur .
Öðru máli virðist gegna með skilnað Brads og Angelinu sem fyrst í stað virtist ætla að verða á rólegu nótunum og í mesta bróðerni . Fljótlega fóru hins vegar í gang sögur um framhjáhald Brads og síðan ásakanir um harðræði hans gagnvart a . m . k . einu af börnum þeirra Angelinu . Framhjáhaldið reyndist svo bara slúður og hið meinta harðræði var rannsakað af yfirvöldum sem fundu því enga stoð í raunveruleikanum . Nú undir lok árs berast svo fréttir af því að þrátt fyrir samkomulag um umgengnisrétt Brads við börn þeirra sé Angelina að reyna að koma í veg fyrir að þau hittist . Það bendir því margt til að deilur á milli þeirra hjóna séu í raun bara rétt að byrja .
Skandall ársins
Orlando Bloom olli mikilli hneykslun margra í ágúst þegar hann lét allt vaða og beraði töfrasprotann þar sem hann buslaði í sjónum ásamt unnustu sinni Katy Perry á derhúfunni einni saman . Þetta gerði hann þrátt fyrir að mega vera fullljóst að uppátækið gæti ratað beinustu leið á netið , sem það og gerði , og vera þar um aldur og ævi . Sjálfur sagði Orlando síðar á árinu að hann hefði í fyrstu orðið reiður , svo sár og nú skammaðist hann sín fyrir óvarkárni sína , en hann segist hafa haldið að þau Katy væru þarna ein á ferð . Honum til uppörvunar stóð Katy honum þétt við hlið í orrahríðinni og flestir aðdáendur hans sneru þessu bara upp í grín eða bentu á að það ætti enginn að þurfa að skammast sín fyrir hvernig hann er af Guði gerður , síst af öllu Orlando Bloom .
Kjóll ársins
Það er að sjálfsögðu úr hundruðum , ef ekki þúsundum kjóla að velja í þessum flokki og sýnist sitt hverjum en eftir ítarlega skoðun þar sem fjölmargir kjólar komu til greina ákváðum við að velja þennan sem kjól ársins . Ekki bara þykir okkur hann vera flottur gala-kjóll heldur fannst okkur enska leikkonan Emma Watson líka bera hann alveg einstaklega vel .
12 Myndir mánaðarins