Menntaskólinn í Reykjavík bæklingur | Page 6

SAGA SKÓLANS Saga Menntaskólans í Reykjavík er samofin langri sögu menntamála á Íslandi. Nemendur skólans hafa víða komið við í þjóðlífinu og markað spor sína í sögu þjóðarinnar. Í seinni tíð hafa nemendur skólans vakið verðskuldaða athygli á mörgum sviðum vísinda og fræða. Þá hafa þeir oft skarað fram úr þegar íslensk ungmenni reyna með sér í ýmsum greinum. Þar má m.a. nefna stærðfræði-, eðlisfræði-, efnafræði- og forritunarkeppni framhaldsskólanna. Sömu sögu má segja um keppni í þýsku og frönsku meðal framhaldsskólanema. Flestir þekkja líka til sigurliða Menntaskólans í Reykjavík í spurningakeppninni „Gettu betur”. Upphaf skólans má rekja til þess er skólahald hófst í Skálholti 1056. Frá Skálholti fluttist skólinn til Reykjavíkur árið 1786 og nefndist þá Hólavallaskóli. Þaðan fluttist hann að Bessastöðum árið 1805 en í núverandi húsnæði kom hann árið 1846. Nefndist hann þá Hinn lærði skóli í Reykjavík eða Latínuskólinn. Frá 1937 hefur skólinn verið nefndur Menntaskólinn í Reykjavík. Því má segja að saga skólans sé orðin löng og merk og hefur hann fóstrað marga af fremstu dætrum og sonum þessa lands.