2.tbl. 44.árg. júní 2016 | Page 52

Uppskeruhátíð HRFÍ Höfundur: Klara Símonardóttir Myndir: Guðbjörg Guðmundsdóttir Síðustu ár hefur HRFÍ staðið fyrir uppskeruhátíð í upphafi árs þar sem stigahæstu ræktendur félagsins eru heiðraðir. Í janúar sl. fór fram heiðrun fyrir sýningaárið 2015 og hófst kvöldið á góðum kvöldverði og heiðrun stigahæstu ræktenda, síðan fór fram happadrætti með veglegum vinningum og má segja félagsmenn séu afskaplega heppnir með viljuga styrktaraðila enda allt frá feldvörum fyrir hundana yfir í hvalaskoðanir í verðlaun. Fyndnasti maður Íslands sá um uppistand og skellt var upp balli frameftir kvöldi fyrir þá sem hressastir voru. Þegar taldir eru stigahæstu ræktendur félagsins eru talin þau meistaraefni (CK) sem hundar úr viðkomandi ræktun fá á sýningum HRFÍ (deildarsýningar teljast ekki með), einnig eru gefin stig þegar ræktandi fær heiðursverðlaun á ræktunarhóp sinn og enn fleiri nái ræktunarhópur í sæti í Besti Ræktunarhópur Sýningar. 2015 varð Guðný Vala Tryggvadóttir með Sankti-Ice ræktun stigahæst en hún hefur náð gríðarlegum árangri með ræktun sína á Sankti Bernharðshundum en hún hóf að rækta tegundina 2002 þá aðeins 22 ára að aldri. Hún hefur ítrekað fengið sæti með hundana sína í Besti Hundur Sýningar (BIS). Í öðru sæti yfir stigahæstu ræktendur félagsins 2015 voru þær Sigurbjörg Vignisdóttir og Ásta María Karlsdóttir með ræktunarnafnið Himna og í því þriðja mæðgurnar Arna Rúnarsdóttir og Rúna Helgadóttir með ræktunarnafnið Gjósku. 52 · Sámur 2. tbl. 44. árg. júní 2016